Mánasteinar, hnettir og hólógram á uppskeruhátíð Biohilíu
Skóli og frístund Menning og listir
Ótrúleg sköpunargleði og hugmyndaflug birtist á Uppskeruhátíð menntaverkefnisins Biophiliu sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu.
Uppskeruhátíðin fer fram bæði á sviði, á sýningartjaldi og í fjölmörgum sköpunarverkum barna í tveimur leikskólum, einni frístundamiðstöð og fimm grunnskólum. Þar má m.a. skoða himinhnettina, hólógrömm af frumum og himingeimnum, hlustunarpíur til að nema hljóðin í líkamanum, spilandi reiðhjól og mánasteina.
Biophilia-menntaverkefnið byggir á listaverki og hugmyndafræði Bjarkar Guðmundsdóttur, þar sem sköpunargáfan er virkjuð sem kennslu- og rannsóknarverkfæri og tónlist, tækni og náttúruvísindi eru tengd saman á nýstárlegan hátt.
Þátttakendur í uppskeruhátíðinni eru Austurbæjarskóli, Dalskóli, Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Fossvogsskóli, leikskólinn Miðborg, leikskólinn Kvistaborg, Sæmundarskóli, Vogaskóli.
Sýningin verður opin fram yfir helgi.
Sýningin verður opin fram yfir helgi.
Síðastliðin þrjú ár hafa skólar frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi, Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi tekið þátt í Biophilia menntaverkefninu undir stjórn Mennta- og menningamálaráðuneytisins með veglegum styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Ísland hefur verið leiðandi í því samstarfi sem frumkvöðull í verkefninu.
Biophilia-menntaverkefnið er samstarfsverkefni Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Norrænu ráðuherranefndarinnar, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur.