Ljósadýrð á aðventunni í miðborginni

Menning og listir Samgöngur

""

Jólaborgin Reykjavík verður bæði litrík og lifandi. Árlega er unnið að því að gera hana fallega og aðlaðandi. Skreytingar eru fallegar og að þessu sinni bætist heill jólaköttur við dýrðina.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur lagt sig fram í nóvember við að undirbúa jólastemninguna en um það bil 150. þúsund perur fylgja jólaskreytingunum að þessu sinni. Tvö teymi starfsmanna vinna þessi störf og taka síðan dýrðina niður í janúar og fram í febrúar 2019.

Efni og útfærslur á skreytingum hafa verið betrumbætt undanfarin ár og greina má ýmsar nýjungar eins og skreytingar í kringum Tjörnina, á Grensásvegi, Hofsvallagötu, Hringtorgi í Skeifunni og einnig má nefna Fellastíginn í Breiðholti. Hverfisgatan verður ljósum prýdd og jólaljós eru nýjung í Grjótaþorpinu.

Viðamesta nýjungin að þessu sinni er jólakötturinn á Lækjartorgi sem er um 5 metrar á hæð og 6 metrar á breidd. Kötturinn er lýstur upp með 6.500 ledljósum. Kveikt var á kettinum 24. nóvember með viðhöfn og voru Grýla og Leppalúði heiðursgestir.

Eftir því sem nær dregur jólum má búast við miklum fjölda fólks í miðborginni, hvort sem er til að versla, sækja viðburði eða gera vel við sig á annan hátt í undirbúningi hátíðarhaldanna.

Margir komast í jólaskap með því að eiga góða stund í miðborginni á aðventunni. Hópar og vinir hittast á kaffihúsum eða jólahlaðborðum og njóta þess að ganga um götur.

Göngugötur á aðventu

Eins og undanfarin ár verður ákveðnum götum í miðborginni breytt í göngugötur hluta úr aðventunni. Tímabil göngugatna í ár helst í hendur við lengdan opnunartíma verslana í miðborginni og verður því frá 13. desember til 23. desember.

Göngugötur verða í miðborginni frá kl. 16.00 virka daga en frá 11.00 um helgar. Göturnar opna fyrir akandi umferð kl. 7.00 alla morgna og verður því akstur heimilaður um göturnar kl. 7.00-16.00 á virkum dögum og 7.00-11.00 um helgar.

Göngugötusvæðið verður eins og áður Laugavegur og Bankastræti milli Vatnsstígs og Þingholtsstrætis, Skólavörðustígur neðan Bergstaðastrætis, Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis og Austurstrætið ásamt Veltusundi og Vallarstræti.

Jólin allsstaðar

Jólatré eru sett upp í ýmsum borgarhlutum og Fellastígurinn skreyttur með ljósum. Þá má búast við kórasöng og almennri jólastemningu hvarvetna.

Hér eru dæmi um viðburði:

  • Skautasvell NOVA á Ingólfstorgi, 1, des til 31, des.
  • Oslóartréð 2. des kl. 16. á Austurvelli.
  • Jólavættaleikur hefst 5. des.
  • Jólaskógurinn í Ráðhúsinu opnar 5. des. Grýla og Leppalúði mæta
  • Jólamarkaður í Hjartargarði verður opinn 13.-16. des og 20.- 23. des.
  • Jólakortasmiðja í Jólaskógi Ráðhússins 15. des., kl. 12-15.

Gangið í bæinn!