Lykilleiðir í hjólakerfinu á höfuðborgarsvæðinu er nú táknaðar með litum. Reykjavíkurborg hefur nýlokið við að setja upp 149 hjólavegvísa ásamt merkingum.
Alls hafa 149 hjólavegvísar í hinum ýmsu stærðum verið settir upp í Reykjavík. Þessi aðgerð er hluti af hjólreiðaáætlun Reykjavíkur sem kveður á um að lykilleiðir á höfuðborgarsvæðinu séu litamerktar. Önnur sveitarfélög eru einnig að setja upp skilti fyrir þetta kerfi.
Þessar lykilleiðir í hjólakerfinu hafa einnig verið kallaðar stofnleiðir, aðalleiðir eða hraðleiðir. Nú hafa þessar lykilleiðir verið merktar og hver leið fengið sinn lit. Lykilleiðirnar eru í sérstökum forgangi þegar kemur að sópun á sumrin og mokstri og hálkuvörnum að vetri til.
Markmiðið með litamerktum lykilleiðum er að bæta þjónustu við hjólreiðafólk, fjölga áfram þeim sem hjóla og hjálpa fólki að velja góða stíga á ferðum sínum, bæði íbúum og gestum.
Litirnir eru blár, grænn, rauður, fjólublár og gulur.
Við litaval á lykilleiðum var stuðst við liti úr náttúru höfuðborgarsvæðisins á merktum leiðum, eins og hafinu, sólarlaginu og gróðri.
Leiðin meðfram strandlengjunni er blá, græna leiðin fer í gegnum Víðidal, Elliðaárdal, Öskjuhlíðina, Fossvog og endar í miðbæ Reykjavíkur. Rauða leiðin liggur frá Sæbraut, gegnum Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnafjarðar. Fjólubláa leiðin liggur frá Elliðavogi í gegnum Elliðaárdal, Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnarfjarðar. Gula leiðin liggur frá miðbæ Mosfellsbæjar í miðbæ Reykjavíkur um Elliðaárósa.
- Blá: Strandleið
- Græn: Reykjavík A – Reykjavík C
- Rauð: Hafnarfjörður C – Garðabær C – Kópavogur C – RVK Borgartún
- Fjólublá: Hafnarfjörður C – Garðabær A – Kópavogur A – RVK Mjódd
- Gul: Mosfellsbær C – Reykjavík C
Á skiltunum er að finna þjónustumerki, þar sem það á við eins og tjaldstæði eða sundlaug. Þá eru skilti með pílum til að minnka líkur á að röng leið sé valin.
Frekari upplýsingar um útfærslu á hjólavegvísun er að finna í leiðbeiningum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um merkingar og vegvísun.
Tengill