Kynntu sér skynörvun og sjálfsákvörðun barna í námsferð

Skóli og frístund

Kynntu sér skynreiðu í Gefnarborg í Garði

Starfsfólk leikskólans Miðborgar fór í áhugaverða námsferð suður með sjó á dögunum og þar sem þau kynntu sér verkefni og námsleiðir fyrir leikskólabörn sem efla skynjun, sjálfsákvörðun og málörvun.

Skynreiða til að efla þroska barna

Í leikskólanum Gefnarborg í Garðinum fékk starfsfólkið kynningu á verkefni með það markmið að efla félagslega þátttöku barna. Á á ensku heitir verkefnið Inclusion through Sensory Integration en skynreiða er það orð sem hefur verið notað á íslensku. Það er þegar heilinn sameinar skilaboð frá fleiri en einu skynsvæði svo að úr verður skiljanleg heild. Með skynreiðu að leiðarljósi er unnið með læsi, útinám, sköpun og umhverfið. Hlutverk starfsfólksins er að skilja, meta og þróa vinnubrögð til að styðja við þroska barna í gegnum skynreiðu.

Myndband um málörvun
Hvernig skilaboðum um mikilvægi málörvunar er komið til foreldra var það sem þau kynntu sér í leikskólanum Völlum á Ásbrú. Til að koma upplýsingunum til foreldra var gert myndband sem hvetur þau til að vera virk í að efla orðaforða barna sinna en hátt hlutfall barna á leikskólanum eru tví- eða fjöltyngd. Myndbandið er textað á íslensku, pólsku, ensku og arabísku.

Börnin velja hvernig þau nýta leikskólatímann
Í leikskólanum Vesturbergi í Keflavík hefur verið starfað eftir flæðishugsun með áherslu á frjálsan leik og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti barna. Þegar námsstefna Vesturbergs var ákveðin, var virðing fyrir frjálsum sjálfsprottnum leik barna lögð til grundvallar öllu uppeldisstarfi leikskólans. Áhersla er lögð á að líta á barnið sem getumikinn einstakling, færan um að taka sjálfstæðar ákvarðanir og að börnin sjálf fái að ráða sem mestu um hvernig þau nýta tíma sinn í leikskólanum. Þörf barnanna fyrir ást, öryggi, hlýju og viðurkenningu hins fullorðna er líka haft að leiðarljósi.