Kynningarfundur um deiliskipulag fyrir Hlemm og nágrenni

Samgöngur Umhverfi

Tölvuteiknuð yfirlitsmynd af tillögu um nýtt deiliskipulag við Hlemm

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar heldur kynningarfund um nýtt deiliskipulag, Hlemmur reitur 1.240.0, sem nú er í auglýsingu. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 23. janúar kl. 17 í Borgartúni 14 á 7. hæð í Vindheimum.

Nýja deiliskipulagið var samþykkt til auglýsingar í borgarráði 5. desember 2019. Skipulagið felur í sér endurskipulagningu svæðisins fyrir forgangsakreinar hágæða almenningssamgangna, ný gatnamót við Snorrabraut/Bríetartún, nýtt torg og göngugötur, afmörkun byggingarreits fyrir flutningshúsið Norðurpól og ný létt mannvirki fyrir verslun og þjónustu og ný afmörkun deiliskipulagsreita á svæðinu. Tillöguna má m.a. nálgast á skjá og tölvu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15 til 29. janúar 2020.

Meginmarkmið breytinganna er að skapa gott vistvænt umhverfi á Hlemmi og nágrenni fyrir gangandi vegfarendur, stað sem mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir mannlíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 29. janúar 2020. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.

Verið öll velkomin á fundinn þar sem deiliskipulagið verður kynnt og tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD sem voru valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir endurhönnun svæðisins og gerð nýs deiliskipulags.

Tenglar