No translated content text
Vegna umræðu síðustu daga um endurgerð Óðinstorgs í Þingholtum vill Reykjavíkurborg halda eftirfarandi staðreyndum til haga.
Í svari frá fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar við spurningum frá Sjálfstæðisflokki og Miðflokki um kostnað við endurgerð torgsins og aðliggjandi gatna er saga torgsins og endurgerðar þess rakinn. Svarið var lagt fram í borgarráði 10. desember síðastliðinn. Í svarinu kemur skýrt fram að kostnaður við sjálft Óðinstorg var aðeins hluti af kostnaði við framkvæmdina en götur í kringum torgið fóru einnig í mjög svo tímabæra endurgerð þar sem lagnir og fráveita þörfnuðust endurnýjunar.
Kostnaður við endurgerð Óðinstorg var 60,6 milljónir króna. Framkvæmdakostnaður Reykjavíkurborgar við endurgerð Óðinsgötu, Óðinstorgs, Týsgötu og Freyjutorgs hluta Spítalastígs, Skólavörðustígs, Lokastígs, Bjargarstígs og Freyjugötu árin 2017-2020 var hins vegar 474,2 milljónir króna. Samþykktar fjárheimildir borgarráðs vegna verkefnisins voru 505 milljónir króna og lokakostnaður við verkið því minni en áætlað var.
Tilurð Óðinstorgs
Hugmyndina um að endurvekja og endurgera Óðinstorg má rekja til Evu Maríu Jónsdóttur sjónvarpskonu í Miðborgarstjórn um síðustu aldamót. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fór fyrir umhverfis- og samgönguráði árið 2008 þegar samþykkt var að fara í samkeppni um torgið. Verkefnið var eitt af fjölmörgum sem frestaðist eftir hrunið 2008.
Verðlaunatillagan var loks framkvæmd, hún þykir hafa heppnast vel og naut Óðinstorg mikilla vinsælda síðastliðið sumar. Borgarstjóri hefur ætíð vikið af fundum þegar fjallað hefur verið um nágrenni heimili hans eins og borgarfulltrúum ber að gera.
Bílastæði við hús borgarstjóra
Bílastæði á baklóð við heimili borgarstjóra eru fimm talsins og eru þau öll í einkaeigu. Lóðin hefur verið skilgreind sem bílastæðalóð og hefur verið í eigu íbúa og fyrrverandi íbúa í nærliggjandi húsum áratugum saman.
Tíu ár eru síðan eldri hjón sem þurftu að flytja af heilsufarsástæðum buðu borgarstjórahjónunum að kaupa tvö stæði, til að þau héldust í eigu fólks sem byggi við lóðina. Fyrir þau var greitt uppsett verð.
Borgarstjóri og fjölskylda hefur aldrei keypt bílastæði af Reykjavíkurborg einsog ranglega hefur verið haldið fram. Þau hafa heldur aldrei átt þrjú bílastæði á lóðinni eins og fullyrt hefur verið.
Svar við fyrirspurn um Óðinstorg