No translated content text
Reykjavíkurborg leitar að þátttakendum í rannsókn sem greina mun umferðaröryggi- og upplifun. Þátttakendur eiga færi á að vinna gjafabréf að verðmæti 75.000 kr.
Rannsóknin er hluti af samstarfsverkefni 28 aðila víðs vegar um Evrópu. Hún beinist að því hvernig útfæra megi öruggar, aðgengilegar og sjálfbærar lausnir sem skilja engin útundan og verður sérstaklega rýnt í hvernig útfærslur henta ólíkum hópum svo sem öldruðum, fötluðum eða ungmennum. Þá verður val á ólíkum fararmátum skoðuð svo sem ganga, hjólreiðar, notkun á bifhjólum, rafskútum, bílum og strætó. Leitað hefur verið eftir samstarfi og þátttöku Öryrkjabandalags Íslands, Blindrafélagsins og fleiri hagaðila.
„Það er mjög mikilvægt að hópurinn sem svarar sé fjölbreyttur og við fáum svör frá fólki með mismunandi þarfir í aðgengismálum,“ segir Bragi Bergsson, aðgengisfulltrúi borgarinnar.
Svæðið sem horft er til í rannsókninni er Hlemmur og nágrenni, en vitneskjan sem fæst úr rannsókninni mun nýtast víðar í borginni. Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður segir upplýsingarnar sem fá má úr slíkri rannsókn mjög hjálplegar við hönnun torga í borginni í framtíðinni.
„Við viljum hanna Hlemm og önnur torg til að mæta þörfum allra þeirra fjölbreyttu hópa sem um þau fara. Til að ná því markmiði er nauðsynlegt að heyra beint frá fólkinu um upplifun þess og þarfir”.
Myndasafn
Hannah Rós Sigurðardóttir Tobin, verkefnisstjóri, leiðir vinnu Reykjavíkurborgar í þessu verkefni. Hún segir mikilvægt að ná til sem flestra til að tryggja að niðurstöðurnar endurspegli íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þá er mikilvægt að ná bæði til fólk sem ferðast um Hlemm með ýmsum fararmátum, en í dag eru líka hópar í samfélaginu sem geta illa nýtt sér almenningssamgöngur eða torg vegna bágs aðgengis og verða niðurstöðurnar nýttar til að hanna torg og umferðarmannvirki með öryggi og aðgengi allra í huga. Könnunin er farin í loftið með spurningalista um ferðahegðun á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfarið af könnuninni er þátttakendum boðið að setja upp app í símanum sínum til að skrásetja hreyfingu um höfuðborgarsvæðið. Í haust og vetur verða svo haldin svokölluð samsköpunarverkstæði (e. co-creation workshops) þar sem rannsakendur munu vinna í samstarfi við borgarbúa í hugmyndavinnu um hvernig hægt sé að koma betur til móts við þarfir og óskir vegfarenda. Öll gagnasöfnun fylgir persónuverndarlögum samkvæmt persónuverndarstefnu borgarinnar.
Evrópska verkefnið, AMIGOS, snýr að helstu áskorunum borga og hvernig má útfæra sjálfbærar, aðgengilegar og öruggar samgöngur. AMIGOS stendur fyrir „Active Mobility Innovations for Green and safe city sOlutionS” og lesa má nánar um á upplýsingasíðu verkefnisins.