No translated content text
Ríkissjóður og Betri samgöngur ohf. hafa gengið frá samningi sín á milli um að félagið taki við landsvæðinu við Keldur og Keldnaholt ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast. Landið er alls um 116 hektarar eða að svipaðri stærð og miðborg Reykjavíkur að flatarmáli.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, undirrituðu samninginn. Betri samgöngur, sem er félag í eigu ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, munu annast verkefnið í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu.
Kaupverðið er 15 milljarðar króna, eins og samgöngusáttmálinn mælti fyrir um, og er það greitt með útgáfu nýrra hluta í Betri samgöngum.
Samkeppni á nýju ári
Betri samgöngur hafa í samstarfi við skipulagsyfirvöld unnið að undirbúningi þróunar svæðisins síðan um mitt síðasta ár. Snemma á nýju ári verður farið í alþjóðlega samkeppni um þróunar- og uppbyggingaráætlun fyrir Keldur og Keldnaholt í samvinnu félagsins og Reykjavíkurborgar. Í framhaldinu verður unninn rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulags- og uppbyggingaráætlanir á grunni verðlaunatillögu í samkeppninni. Stefnt er að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.