Káratorg verður barnvænt hverfistorg

Útsendingar

""

Káratorg fær nýja ásýnd sem notendavænt, fallegt og gróðursælt hverfistorg fyrir alla aldurshópa með sérstakri áherslu á yngstu börnin. Gestir og gangandi hafa ef til vill tekið eftir kynningarskilti við torgið sem hefur staðið þar frá því í lok sumars og varpar ljósi á fyrirhugaðar breytingar. Hagaðilar, þeir sem búa eða vinna við torgið eða fara þar um eða dvelja, fengu tækifæri til að koma með athugasemdir eða hugmyndir á forhönnunarstigi. Áætlað er verkhönnun hefjist í vetur og verður unnið úr þeim ábendingum sem bárust.

Mynd/Onno

Áhersla á gróður og lýsingu

Deild borgarhönnunar hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar hefur unnið að hönnuninni ásamt ráðgjöfum Landmótunar. Káratorg stendur á einstaklega sólríkum stað og þarf að vera torg sem styður við reksturinn við torgið og að vera staður þar sem hægt er að láta líða úr sér, njóta, leika og spjalla.

Takmarkið er líka að skapa torg sem er fallegt yfir allar árstíðir. Það er gert með vel völdum gróðri og vinalegri lýsingu sem skapar ákveðna stemningu en veitir líka öryggi þegar rökkva tekur. Torgið þarf enn fremur að skapa skemmtilega sjónræna eftirvæntingu eða aðdráttarafl þegar litið er að því frá nærliggjandi götum.

Öruggt athvarf fyrir yngstu börnin

Það á líka að vera pláss fyrir yngstu börnin í miðborginni en á Káratorgi fá þau lítið, lokað leikgerði þar sem þau geta leikið sér í öruggu umhverfi. Þarna verður líka næg setaðstaða og aðgengi fyrir alla. Einnig verður settur upp vatnsfontur sem er ekki bara fyrir fólk heldur líka besta vin mannsins, hundinn.

Auknar vinsældir síðustu ár

Káratorg var einu sinni lagt undir bílastæði en hefur verið svokallað Torg í biðstöðu-verkefni frá árinu 2014. Í gegnum það verkefni hefur torgið sannað sig sem mikilvægt hverfistorg fyrir íbúa og gesti miðborgarinnar og hefur nýting þess aukist ár frá ári. Við torgið er góð þjónusta sem styður enn frekar við torgið og hlutverk þess sem gott hverfistorg og dvalarsvæði. Samhliða uppbyggingu í miðborginni ásamt áherslu á að skapa rými fyrir fólk er Káratorg nú tilbúið að fara í sinn rétta búning sem torg fyrir alla, unga sem aldna.

Verkhönnun fer fram í vetur en þá verður kafað dýpra í hönnun torgsins hvað varðar hæðarlegu, halla, lagnir, götugögn, gróður og yfirborðsefni. Við lok verkhönnunar getur framkvæmd hafist.

Skoða staðsetningu Káratorgs í Borgarvefsjá.