Reykjavíkurborg auglýsti starf borgarlögmanns laust til umsóknar í júní 2017. Tveir umsækjendur sóttu um stöðuna; Ebba Schram hæstaréttarlögmaður og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður.
Þriggja manna ráðningarnefnd fékk það hlutverk að leggja mat á umsóknirnar, ræða við umsækjendur, leggja fyrir þá verkefni til úrlausnar og stilla í kjölfarið upp tillögu að ráðningu. Á grunni heildstæðs hæfnismat var það mat nefndarinnar að Ebba Schram væri hæfari til að gegna starfi borgarlögmanns og lagði borgarstjóri því til við borgarráð að hún yrði ráðin. Borgarráð samþykkti þá tillögu sl. sumar. Sá umsækjandi sem ekki hlaut starfið var ósáttur við þá niðurstöðu og kærði ráðninguna til Kærunefndar jafnréttismála.
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði 2. júli sl. að frekar hefði átt að ráða Ástráð í embættið. Réð þar úrslitum sú yfirgripsmikla þekking og reynsla sem hann hafði af lögmanns- og málflutningsstörfum í tæpa þrjá áratugi, segir í niðurstöðu nefndarinnar. Ráðningarnefndin komst að einnig að þeirri niðurstöðu að reynsla Ástráðar af lögmannsstörfum væri meiri en þess umsækjanda sem hlaut starfið, en á móti kom að reynsla hennar af sveitarstjórnarrétti og verkefnum sveitarstjórna taldist meiri en Ástráðar auk þess sem frammistaða hennar í starfsviðtali og við úrlausn verkefnis sem lagt var fyrir umsækjendur í ráðningarferlinu var betri en hans. Kærunefndin er sammála því mati ráðningarnefndarinnar að reynsla hennar af sveitarstjórnarrétti og verkefnum sveitarfélaga væri meira en hans, en taldi í sinni niðurstöðu að vægi lögmanns- og málflutningsstarfa hefði átt að vera mun meira í heildarmatinu. Einnig taldi kærunefndin að ekki lægi skýrt fyrir í gögnum málsins hvernig ráðningarnefndin hefði metið frammistöðu umsækjanda í starfsviðtali með mismunandi hætti. Hins vegar var nefndin sammála því mati ráðningarnefndarinnar að úrlausn hennar á þeim verkefnum sem lögð voru fyrir umsækjendur hefði verið betri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöðuna koma á óvart í ljósi þess að undanfarna áratugi hafi verið lagður sérstakur metnaður í vandað og gagnsætt ráðningarferli þegar ráðið er í æðstu stöður á vegum Reykjavíkurborgar.
„Við munum að sjálfsögðu fara yfir þennan úrskurð og meta hvort við þurfum að breyta einhverju hjá okkur varðandi ráðningarferla. Ég sat sjálfur í ráðningarnefndinni og hef þann háttinn á að gera það þegar um er að ræða æðstu stöður innan borgarkerfisins. Kærunefndin er í meginatriðum sammála mati og matsþáttum ráðningarnefndarinnar, en gerir hins vegar mun meira úr vægi málflutningsreynslu. Það virðist ráða úrslitum þegar niðurstaða nefndarinnar er lesin. Mat ráðningarnefndarinnar, byggt á þeim kröfum sem gerðar voru, var hins vegar að horfa einnig til annarra þátta, þar sem sú sem fékk stöðuna var sterkari, einnig að mati kærunefndarinnar, sem voru verkefni sveitarfélaga og sveitarstjórnarréttur. Við þetta bætist svo að ráðningarnefndin tók viðtöl við umsækjendur sem kærunefndin gerði ekki en einsog eðlilegt er hefur frammistaða í viðtali þýðingu við ákvörðun um ráðningu.
Í þessu máli stóð valið á milli tveggja mjög hæfra umsækjenda. Einsog málið lá fyrir borgarráði var skýrt að sú sem fyrir valinu varð var hæfari samkvæmt heildar hæfnismati og því hefði það brotið í bága við jafnréttislög að ganga fram hjá henni. Fyrir liggur af þessari niðurstöðu að kærunefnd jafnréttismála er því ósammála og metur tvo hæfnisþætti í heildarmatinu með öðrum hætti en ráðningarnefndin,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.