Jarðarstund án ljósa á laugardagskvöld

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg tekur þátt í Jarðarstund eða Earth hour í þriðja sinn með því að kveikja ekki götuljósin í borginni fyrr en kl. 21:30 laugardaginn 29. mars 2014.

Jarðarstund er alþjóðlegur umhverfisviðburður sjálfboðaliðasamtakanna World Wildlife Fund sem 7.000 þúsund borgir í 150 löndum taka þátt í. Margir hafa hugann við hlýnun jarðar af mannavöldum og þau áhrif sem meðal annars birtast í náttúruhamförum eins og ofsaveðri.

Margar borgir taka þátt með því að slökkva ljós sem lýsa upp frægar byggingar eins og Óperuhúsið í Sydney og Eiffel turninn í París. Þá hefur Kóngulóarmaðurinn gengið til liðs við Earth hour samtökin sem einskonar alþjóðlegur sendiherra Earth hour 2014 og styður hana með ýmsu móti, jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum og hvetur unga fólkið til að taka þátt.

Í Reykjavík dimmir þegar Jarðarstundin stendur yfir og best að styðja viðburðinn með því að kveikja ekki götuljósin, myrkur er skráð kl. 21 og einhver norðurljósavirkni mælist. Reykjavíkurborg hvetur um leið alla sem hafa forræði yfir upplýstum byggingum í borginni til að slökkva á lýsingunni þessa klukkustund svo fólk geti notið stundarinnar betur. Vitað er að ráðhúsið í Reykjavík, Perlan í Öskjuhlíð og aðalbygging Háskóla Íslands verða ekki upplýst.

Jarðarstund er fjölskyldustund

Kjörið tækifæri myndast í hverfum borgarinnar til að leggja málefninu lið og hvetur Reykjavíkurborg fjölskyldur til að taka þátt með því að ræða saman við kertaljós hvernig þær geti lagt Jörðinni lið með breyttri hegðun, til dæmis breyttum samgönguvenjum, bættri flokkun við endurvinnslu, dregið úr umbúðum og aukið sparneytni í orkumálum.

Meðal viðburða sem verða í Reykjavík þegar Jarðarstundin er liðin eru órafmagnaðir tónleikar Ragnheiðar Gröndal og Pálma Gunnarssonar í Hámu á Háskólatorgi og einnig munu Grænir dagar (Green Days) við Háskóla Íslands standa fyrir viðburði við aðalbyggingu HÍ á Jarðarstundinni. Búast má við að margir taki þátt að þessu sinni.

Stundin hefst í Nýja Sjálandi á staðartíma kl. 20:30 laugardaginn 29. mars og breiðist síðan út yfir tímabelti jarðarkringlunnar. 

Tenglar

http://www.earthhour.org/

https://www.facebook.com/EarthHourIceland

Norðurljósaspá

Grænir dagar í Háskóla Íslands