Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir ráðin skrifstofustjóri leikskólamála

Skóli og frístund

""

Ákveðið hefur verið að ráða Ingibjörgu Margréti Gunnlaugsdóttur í starf skrifstofustjóra fagskrifstofu leikskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Ingibjörg Margrét er útskrifuð úr Fósturskóla Íslands og er með diplóma frá heimspekideild Háskóla Íslands. Þá er hún með diplóma í stjórnun menntastofnana frá Framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, auk náms í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun HÍ.

Ingibjörg Margrét á að baki langan starfsaldur í leikskólamálum eða um 34 ár. Hún hefur unnið sem deildarstjóri í leikskóla, aðstoðarleikskólastjóri, leikskólastjóri, leikskólaráðgjafi, þróunarfulltrúi og undanfarin 4 ár verið staðgengill skrifstofustjóra á fagskrifstofu leikskólamála. Á haustmánuðum hefur hún verið starfandi skrifstofustjóri á fagskrifstofu leikskólamála.

Ingibjörg Margrét hefur jafnframt  tekið þátt í og stýrt mörgum stýrihópum og starfs- og vinnuhópum á vegum Leikskólasviðs og skóla- og frístundasviðs.