Íbúðum eða neyðarrýmum í Reykjavík fjölgað um 49 frá október 2019

Velferð

Í Reykjavík er 301 einstaklingur skilgreindur heimilislaus. Langstærstur hluti hópsins, eða 54%, býr í húsnæði fyrir heimilislausa á vegum Reykjavíkurborgar eða á áfangaheimilum. 31% hópsins nýtir neyðargistingu en átta einstaklingar, eða 3% hópsins, hafast við „á víðavangi“ við slæmar aðstæður. 

Á fundi velferðarráðs í dag var lagt fram stöðumat á stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir frá árinu 2019 sem gildir til ársins 2025. Þar kemur fram að ýmsar jákvæðar og mikilvægar breytingar hafi áunnist í þjónustu við heimilislausa frá árinu 2019. Má þar nefna að frá október 2019 hafi neyðarrýmum eða íbúðum verið fjölgað um 49. 

Í stöðumatinu er nefnt að nú sé tímabært að fram fari endurskoðun og endurmat á aðgerðum stefnunnar, sér í lagi á grundvelli nýrrar úttektar um stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjonustuþarfir, reynslunnar af hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“, nýtingu og markhópi smáhúsa og stöðugildaþörf Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar, sem veitir heimilislausu fólki margvíslegan stuðning.   

Á fundinum var samþykkt að stofna stýrihóp um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnunni. Stýrihópurinn mun leggja fram tillögur að nýjum eða breyttum aðgerðum, forgansröðun og kostnaðarmati. Sérstök áhersla verður lögð á stöðu heimilislausra kvenna í endurskoðun á aðgerðaáætluninni. 

Langstærstur hluti heimilislausra í Reykjavík nýtir húsnæðisúrræði borgarinnar

Umfangsmikil skýrsla um stöðu heimilislausra í Reykjavík var jafnframt kynnt á fundi velferðarráðs í dag. Skýrslan var unnin sameiginlega af deild málaflokks heimilislausra og teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði. 

Í skýrslunni er rakið hvernig þjónusta við heimilislaust fólk hefur tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur árum, eftir að stefna um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir tók gildi árið 2019. Nú byggi allt starf í málaflokknum á hugmyndafræðinni um húsnæði fyrst og þá hefur VoR-teymið, sem veitir heimilislausum með miklar og flóknar þjónustuþarfir þjónustu á vettvangi, verið eflt til muna. 

Á árinu 2021 hafi velferðarsvið sett aukinn þunga í skráningu á hópnum sem fær þjónustu og þannig náð betur utan um hann, í góðri samvinnu við lögreglu, fangelsismálayfirvöld og heilbrigðisstofnanir. Þetta geri vinnslu og greiningu gagna auðveldara og aðgengilegra, sem gerir starfsfólki sviðsins betur kleift að meta þjónustuþarfir hópsins.

Heimilislausum fækkar í Reykjavík

Fjögur ár eru liðin frá því að síðast var unnin svo umfangsmikil úttekt á stöðu heimilislausra í Reykjavík. Það var árið 2017 en sambærilegar kannanir voru unnar 2012 og 2019. Þegar borin eru saman árin 2017 og 2021 má sjá að heimilislausum í Reykjavík hefur fækkað um 14% á því tímabili. Helstu hlutföll hafa haldist sambærileg undanfarinn áratug. Þannig hafa konur verið frá fjórðungi til þriðjungs hópsins á tímabilinu, fólk af erlendum uppruna hefur verið á bilinu 10–11% og þá eru flestir heimilislausir á aldrinum 21–49 ára öll úttektarárin.

VoR-teymi veitir 40% heimilslausra stuðning

Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR-teymið) hefur þann tilgang að aðstoða heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það veitir fjölbreytta aðstoð, stuðning og ráðgjöf um þá þjónustu sem stendur fólki til boða. Skýrslan sýnir að 120 einstaklingar, eða 40% heimilislausra í Reykjavík, fá þjónustu VoR-teymisins. Hlutfallslega fleiri konur fá þjónustu teymisins en karlar. Þannig fá 48% heimilislausra kvenna þjónustu teymisins en 36% heimilislausra karla. 

Skýrslan er unnin í Infogram og er því aðgengileg og gagnvirk. Þannig má til að mynda velja og bera saman breytur í töflum, til dæmis eftir árum, kynjum eða ríkisfangi.

!function(e,i,n,s){var t="InfogramEmbeds",d=e.getElementsByTagName("script")[0];if(window[t]&&window[t].initialized)window[t].process&&window[t].process();else if(!e.getElementById(n)){var o=e.createElement("script");o.async=1,o.id=n,o.src="https://e.infogram.com/js/dist/embed-loader-min.js",d.parentNode.insertBefore(o,d)}}(document,0,"infogram-async");

 

Fjármagn til reksturs Konukots aukið

Á fundi velferðarráðs í dag var einnig samþykkt að samningsupphæð við Rótina um rekstur Konukots, sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur, verði aukin um 29 milljónir króna, vegna breytinga á starfseminni og nýrra verkefna. Meðal annars verður bætt við stöðu teymisstýru í neyðarskýlinu, þaðan verður þjónusta veitt íbúum smáhúsa og þá verður hætt að reiða sig á framlag sjálfboðaliða. Áætlað er að kostnaður við Konukot á árinu 2022 verði 122,5 milljónir króna en upphaflega samningsupphæðin var 93,6 milljónir króna á ári.