Hljóðmön, hjólastígar og strætóakrein við Rauðagerði

Framkvæmdir Samgöngur

""

Framkvæmdir eru hafnar á Miklubraut við Rauðagerði. Forgangsakrein fyrir Strætó verður gerð frá núverandi biðstöð að rampa við Reykjanesbraut.

Aðskildir göngu- og hjólastígar verða lagðir og götulýsingu komið fyrir meðfram stígunum. Hljóðmön og hljóðveggur verða sett milli götu og stíga. Gróðursett verður í hljóðmön. Verkið er unnið í samstarfi við Vegagerðina og Veitur. Áætlaður kostnaður við verkið eru rúmlega 200 millj.kr og þar af er kostnaður Reykjavíkurborgar tæplega helmingur.

Forsaga

Borginni barst undirskriftalisti 72 íbúa í febrúar 2013 með áskorun um að hefja framkvæmdir við hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis. Í framhaldi af því var hafist handa við gerð frumdraga að nýjum stígum og nýrri mön, þar sem stuðst var við hljóðvistareikninga fyrir og eftir gerð nýrrar manar. Haldnir voru tveir almennir fundir með íbúum árin 2014 og 2015 og varð góð samstaða um þá tillögu sem nú verður framkvæmd. Eftir samþykkt deiliskipulags fyrir svæðið í umhverfis- og skipulagsráði þann 1. júlí 2015 var íbúum á svæðinu sent bréf þar sem þeim var kynnt niðurstaðan.

Framkvæmd

Strætó: Ný strætórein sem bætist við sunnan megin við Miklubraut.

Vatnslögn:  Vatnslögn liggur meðfram Miklubraut sem nauðsynlegt er að hafa góðan aðgang að og getur hljóðmön því ekki að farið ofan á hana eins og stungið hefur verið upp á.

Hljóðvist  Hljóðvist verður bætt með hljóðmönum fyrir íbúa í Rauðagerði. Miðað er við að hljóðvist nái niður í 55 desibil eða minna. Því nær sem mön er götu því lægri getur hún verið og að sama skapi hærri því fjær sem hún þarf að fara. Ákveðið var að færa manir sem næst vatnslögn svo þær gætu verið sem lægstar.

Hjólandi og gangandi: Fimm metrar eru frá Miklubraut í vatnslögn. Þessi breidd er of lítil til að koma fyrir hjóla- og göngustíg og því var ákveðið að fara með báða stígana sunnan megin við manirnar. Þannig er hægt að auka öryggi þeirra sem hjóla og ganga og auka upplifun þeirra fjarri ys og þys bílanna. Ákveðið var að fara þó ekki nær lóðamörkum húsa en fimm metra. Manir verða gerðar úr veggjum úr grjótkörfum og grasbrekkum með gróðri.

Eftir samráð við húseigendur sem eiga lóðir næst framkvæmdinni var kannað hvort mögulegt væri að færa göngu- og hjólastíga lengra frá húsunum. Einungis reyndist hægt að færa þá til framan við tvö hús. Áningarstaður verður settur í bið og er ekki lengur inn í þessari framkvæmd. Aukið verður við gróður á milli lóða og göngu- og hjólastíga. Einnig verður hægt að setja inn á völdum stöðum girðingar milli lóða og göngu- og hjólastíga.

Framkvæmdin er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um áframhaldandi uppbyggingu forgangs á öllum meginleiðum strætisvagna með gerð sérakreina og forgangi á gatnamótum og áframhaldandi uppbygging stígakerfis í samræmi við Hjólreiðaáætlun.

Nánari upplýsingar eru í framkvæmdasjá og þar er tengill á kynningu og teikningasett. Sjá framkvæmdasjá