Hleðslustöðvar fyrir rafbíla í bílastæðahúsum

Samgöngur Umhverfi

""

Í dag voru teknar í notkun fjórar hleðslustöðvar fyrir rafbíla í bílastæðahúsinu á Vesturgötu 7.

Unnið er að því að setja um 58 hleðslustæði í miðborginni en nú þegar eru komin tíu hleðslustæði í bílastæðahúsum, 4 á Vesturgötu 7 og 6 í Traðarkoti.

Á næstu sex til átta vikum verða tekin í notkun sex hleðslustæði í Stjörnuporti, sex í bílastæðahúsinu á Vitatorgi og fjögur á Bergstöðum.

Verkefnið hófst formlega með umsókn Reykjavíkurborgar til Orkustofnunar um styrk til uppsetningar á 58 hleðslustæðum, 32 í götustæðum og 26 í bílastæðahúsum.

Við umsóknina til Orkusjóðs var horft til þess að byggð er þétt í miðborg Reykjavíkur og því minna um bílastæði á lóðum. Miðborgin er stórt vinnusóknarsvæði og þar er kjarni stjórnsýslu ríkis og borgar, menningarstarfsemi og ferðaþjónusta, verslun og veitingastarfsemi auk ýmissar þjónustu. Orkustofnun samþykkti styrk upp á 10 milljónir króna til verkefnisins.

Útboð fór fram í október 2017 og sendu sjö aðilar inn tilboð.

Samningsaðili Reykjavíkurbogar er Ísorka / Íslenska gámafélagið sem sér um uppsetningu og rekstur hleðslustöðvanna til þriggja ára.

Upplýsingar um stæðin er að finna á vef Ísorku og eru stæðin sett inn um leið og þau tengjast kerfinu.

Um er að ræða hleðslustöðvar sem hlaða rafbíla tiltölulega hratt en samt ekki hraðhleðslustöðvar. Þannig tekur um þrjár klukkustundir að fullhlaða tóma rafhlöðu, tala má um snögghleðslu þar sem stöðvarnar hlaða um tvöfalt hraðar en væru rafbílar settir í hleðslu við venjulegt heimilisrafmagn.

Unnið er að uppsetningu hleðslustöðva í götum á eftirfarandi stöðum:

  • Við Höfða
  • Rauðarárstígur við Bríertartún      4 stæði
  • Grettisgata við Rauðarárstíg         4 stæði
  • Kirkjutorg                                       4 stæði
  • Borgarbókasafn Grófinni               4 stæði
  • Lindargata við Skuggasund          4 stæði
  • Amtmannsstígur við Lækjargötu   4 stæði
  • Geirsgata við Miðbakka                4 stæði
  • Hverfisgata                                    4 stæði

Fyrst um sinn munu notendur ekki þurfa að greiða fyrir rafmagn en greitt er fyrir bílastæði í bílastæðahúsum og í götustæði eftir 90 mín.

Uppsetning hleðslustöðva er í samræmi við markmið borgarinnar um að styðja við umhverfisvæna samgöngumáta, draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og bæta með því loftgæði innan borgarmarkanna.