Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur samþykkt

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Ný hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík var samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær.  Í henni eru sett fram markmið sem miða að því að auðvelda sem flestum að nýta sér hjólreiðar sem alvöru samgönguvalkost. Markmið eru mælanleg til að hægt verði að fylgjast með árangri áætlunarinnar.

Áætlunin er sett fram sem vefsíða: hjolaborgin.is en þar eru auk markmiða gagnvirk kort og áhugaverðar staðreyndir um hjólreiðar í borginni.

Betri hjólaleiðir og lengri

Hjólreiðaáætlunin felur í sér framkvæmdaáætlun fyrir næstu fimm árin í Reykjavík en samkvæmt henni er gert ráð fyrir 30 km af nýjum hjólastígum. Ráðist verður í gerð lengri hjólastíga auk þess sem unnið er að minniháttar tengingum sem munu bæta hjólaleiðir og tengja saman leiðir. Á tímabilinu verður m.a. unnið að sjö kílómetra langri hjólaleið meðfram Miklubraut og Hringbraut allt frá Ánanaustum að Elliðaárdal. Þá verður lögð sérstök áhersla á góðar og betrumbættar þveranir hjólaleiða yfir gatnamót. Í því tilliti verður gerð greining á mögulegum valkostum þverana, þ.e. undirgöng, brú eða í plani, m.a. með tilliti til öryggistilfinningar notenda á stígum og jákvæðu viðhorfi fólks til hjólreiða.

Metnaðarfull markmið

Í nýju hjólreiðaáætluninni er gert ráð fyrir að fylgja markmiðum eftir með mælingum á árangri.  Meðal markmiða sem mæla á eru:

  • Hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykjavík verði a.m.k. 6% árið 2017 og 6,5% árið 2020.
  • Hlutdeild hjólandi og gangandi í öllum ferðum í Reykjavík verði a.m.k. 25% árið 2017 og 26% árið 2020.  Þetta hlutfall er núna 5,5%.
  • Hlutfall hjólaleiða af heildar stígakerfinu sem eru aðgreindar frá bílum og gangandi verði 6% árið 2017 og 8% árið 2020. Er tæplega 4,5% í dag.
  • Að árið 2020 verði hjólastæði við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar fyrir 20% af nemendum og starfsfólki.
  • Hafin verði markviss vinna að því að helmingur hjólastæða við grunnskóla verði yfirbyggð. Í dag uppfylla fimm skólar þetta markmið, 17 skólar eru með hjólastæði fyrir rúmlega 10% nemenda og starfsfólk, en við 15 skóla eru færri hjólastæði.
  • Gerð verði könnun á öryggistilfinningu og viðhorfi fólks til hjólreiða á árinu 2017 og stefnt að jákvæðri þróun á báðum þáttum í könnun árið 2020.

Mikil aukning í samgöngusamningum

Reykjavíkurborg ætlar að starfa með aðilum vinnumarkaðarins til að fjölga þeim sem hjóla í og úr vinnu í borginni. Áhersla verður lögð á að kynna fyrirtækjum og einstaklingum ávinning beggja aðila af auknum hjólreiðum og jákvæðum áhrifum samgöngusamninga.

Algengt er orðið að fyrirtæki bjóði starfsmönnum sínum að gera samgöngusamninga þar sem starfsmenn skuldbinda sig til að nota vistvæna samgöngumáta á leið til og frá vinnu a.m.k. þrjá daga í viku og til ferða á vegum vinnuveitanda. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem nú bjóða starfsmönnum slíka samninga eru orðin á annað hundrað.
Ávinningurinn af því þegar starfsmenn mæta á hjóli í stað bíls er töluverður. Hver starfsmaður sem mætir á hjóli í stað einkabíls sparar fyrirtækinu árlega:

  • Að meðaltali um 40.000 krónur í færri veikindadaga.
  • Að meðaltali um 230.000 krónur á ári í bílastæðakostnað.

Heimild: Rannsóknir frá TNO (2009) og VTPI (2015).

Hjolaborgin.is

Nýi vefurinn er hannaður af Brandenburg fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.