Hjólað í vinnuna hófst í tuttugasta og annað sinn í dag. Lýðheilsuátakið var sett á veitingahúsinu á Bístró í Elliðaárdalnum. Reykjavíkurborg styður heilsuátakið og starfsfólk hennar hefur verið mjög duglegt að taka þátt. Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði að hjólreiðar hefðu verið áberandi vinsælar núna í apríl.
Hjólreiðar hamingjuríkur ferðamáti
Reykjavíkurborg hefur lengi unnið að betri hjólaborg til að auka lífsgæði allra borgarbúa. Margar góðar ástæður eru fyrir því að hjóla til og frá vinnu, ganga, fara í strætó eða með einhverju móti sem styður hreyfingu. Loftgæði verða betri, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð verða minni. Margir telja að hjólreiðar séu hamingjuríkasti ferðamátinn.
45% aukning milli aprílmánaða 2023 og 2024
Markmið Hjólreiðaáætlunar Reykjavíkur 2021–2025 er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni og það er að takast, að mati borgarstjóra.
- Aukning milli aprílmánaða 2023 og 2024, samkvæmt hjólatalningum á höfuðborgarsvæðinu, var 45%.
- Það er líka hjólað á veturna en aukningin í janúar var 38% milli ára.
- Reykjavíkurborg setti sér markmið um 50 kílómetra af hjólastígum árið 2025 og nú eru þeir orðnir 42 kílómetrar. Árið 2020 voru hjólastígarnir í Reykjavík 32 km.
- Markmið Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 er að 5000 hjólastæði verði við grunnskóla borgarinnar en þau voru orðin 4800 árið 2023.
Hjólað til að bæta svefninn
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á setningunni að hjólreiðar væru feikilega góður lífsstíll og liður í því að efla lýðheilsu. Alma Möller landlæknir mælti með allri hreyfingu, hún slær á kvíða og við sofum einnig betur. Gott væri að hreyfa sig að minnsta kosti í 30 mínútur á dag.
Borgarstjóri sagði nauðsynlegt að efla innviði fyrir virka ferðamáta og benti á að það væri sterkt samband milli fjölda nýrra íbúa og fjölda bifreiða.
Þau sem ávörpuðu setningarhátíðina voru sammála um að hjólreiðar efldu andann og bættu líðan.
Tilgangur þessa heilsuátaks
Þórey Edda Elísdóttir, varaforseti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem stýrir heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna, setti verkefnið formlega. Það stendur að vanda yfir í þrjár vikur eða til 28. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga, hoppa eða nota annan virkan ferðamáta. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta.