Hátt í 15.000 börn hefja skóla- og frístundastarf

Skóli og frístund

""

Grunnskólarnir verða settir í dag og hefja þá hátt í 15.000 börn skóla- og frístundastarf í 36 skólum og frístundaheimilum víðs vegar um borgina.

Um 1.500 börn eru að setjast á skólabekk í fyrsta sinn og mæta í skólann með foreldrum sínum. Skólarnir bjóða flestir upp á kynningarfundi fyrir foreldra í upphafi skólagöngunnar þar sem fjallað er um starfið framundan. Á Foreldravefnum eru margvíslegar upplýsingar fyrir foreldra um skipulag grunnskólastarfs, samstarf skóla og foreldra og hvernig skipuleggja má aðstoð við heimanámið.

Nú þegar börnum fjölgar í umferðinni eru ökumenn hvattir til að sýna aðgát nærri skólum og frístundaheimilum þar sem ungir vegfarendur eru að fóta sig á nýjum slóðum.