Gröndalshús fær nýjan stað meðal annarra eldri húsa í Grjótaþorpinu að Vesturgötu 5b. Í þessari viku hefjast framkvæmdir á lóðinni, en steyptur verður kjallari undir húsið og er gert ráð fyrir að því verði lyft á nýjan stað fyrir lok árs. Í framhaldi verður gengið endanlega frá öllu ytra byrði hússins og lóð, en áætlað er að þeim framkvæmdum verði lokið í júní 2015.
Gröndalshús var flutt frá sinni fyrri staðsetningu fyrir nokkru síðan og var ytra byrði þess endurgert á verkstað úti á Granda. Tekið var mið af upprunalegu útliti hússins og byggingarstíl við endurgerð þess.
Vegna framkvæmda við grunn hússins þarf að flytja tré og steina við götu en hvort tveggja verður endurnýtt. Göngustíg milli húsa frá Hlaðvarpahúsi verður lokað tímabundið og þar kemur vinnuskúr til bráðabirgða. Áhersla er lögð á snyrtilega umgengni á verkstað og með öryggi vegfarenda í huga verður vinnusvæðið girt af.
Reykjavíkurborg keypti húsið til varðveislu vegna menningarsögulegs gildis þess. Minjavernd annast framkvæmdir við nýjan grunn og flutning hússins.
Púltið, Skrínan eða Skattholið
Húsið á sér yfir 130 ára sögu. Árið 1881 byggði Sigurður Jónsson járnsmiður sér nýtt hús úr timbri sem barst til Íslands með gríðarstóru skipi sem rak mannlaust um hafið og strandaði í Höfnum. Sigurður bjó í húsinu og hafði þar járnsmíðju sína til 1888 en þá eignaðist það Benedikt Gröndal og eftir það var húsið kennt við hann og nefnt Gröndalshús.
Húsið var oft kallað Púltið, Skrínan eða Skattholið vegna hins sérkennilega byggingarlags, en það er tvílyft að framan og einlyft að aftan.
Benedikt breytti járnsmiðjunni í stofu og bjó í húsinu til dauðadags árið 1907. Húsið var áfram í eigu fjölskyldu hans til 1927 þegar Ámundi Hjörleifsson og Eugenia I. Nilsen eignuðust það. Eugenia bjó í húsinu þar til hún lést árið 2004.
Teikningar og fleiri myndir má sjá í Framkvæmdasjá > Gröndalshús fær nýjan stað