Grjóthörð og jákvæð

Velferð Mannlíf

""

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er framkvæmdastjóri Keðjunnar, sem er stuðningsþjónusta fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Keðjan heyrir undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Halldóra er uppalin í Garðabæ og býr þar í dag ásamt eiginmanni, Óla Svavari og syninum Kristófer Birni.

Fyrstu fimm ár ævinnar átti hún heima á Reynimelnum í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég fór mjög oft í sund með foreldrum mínum í Vesturbæjarlaugina, sem var bara hinum megin við götuna. Þegar ég var fimm ára þá fluttum við í Garðahrepp eins og Garðabær hét þá og þar hef ég búið síðan.“

Halldóra er hreystin uppmáluð enda hefur hún mikinn áhuga á íþróttum og útvist. „Ég elska að hlaupa, helst í náttúrunni og finnst líka gaman að hjóla og synda. Ég æfi þríþraut hjá Þríþrautardeild Breiðabliks auk þess að hlaupa með Hlaupahóp Stjörnunnar og Náttúruhlaupum.  Á veturna taka svo skíðin yfir, svigskíði, fjallaskíði, gönguskíði og utanbrautargönguskíði. Ég er nýbúin að vera á Jöklanámskeiði og það var alveg út fyrir þægindahringinn en verulega spennandi. Svo hef ég líka mjög gaman að gefa af mér t.d. í þjálfun og sem mentor. Mantran mín er einföld: ,,Ég er „grjóthörð og jákvæð.“

Ég hef kynnst fullt af fólki í gegnum áhugamálin sem er líka mjög gefandi. Á sumrin elska ég að fara í fjallgöngur eða fjallahlaup og þá erum við hjónin, oftast í góðra vina hópi. Ég hef ferðast bæði um landið okkar sem og heiminn og tek þá oft þátt í þríþrautarkeppnum, maraþonum eða Ultra maraþonum í leiðinni.“

Ekki er nóg með að Halldóra stundi íþróttir af kappi heldur stundar hún veiðar líka. „Við hjónin förum saman á veiðar, á hreindýr, gæs og rjúpu á haustin og veturna. Auk þess er ég mikill aðdáandi Formúlu 1 kappakstursins og lýsti útsendingum um árabil á Stöð 2.“

Halldóra hefur komið víða við bæði í íþróttum og í atvinnulífinu og hefur brennandi áhuga á því að takast á við nýjar áskoranir. „Mér finnst mjög skemmtilegt að fara út fyrir þægindahringinn minn og takast á við krefjandi verkefni og hef því komið víða við á vinnumarkaði. Eftir stúdentspróf starfaði ég í sjávarútvegi hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (Icelandic) í átta ár.  Svo fór ég í  upplýsingatæknina, fyrst sem markaðsstjóri hjá Opnum kerfum en varð  síðar framkvæmdastjóri sölusviðs.  Ég tek reglulega 360 gráðu beygju og langar stöðugt að prufa eitthvað nýtt. Eftir að hafa starfað hjá Opnum Kerfum tók ég við útbússtjórastöðu hjá Íslandsbanka í Garðabænum og var í því starfi í tæp níu ár. Ég kynntist svo aðeins íslenskri ferðaþjónustu þar sem ég starfaði hjá Kynnisferðum sem rekstrarstjóri í tvö ár áður en ég kom til Reykjavíkurborgar.“

Halldóra er framkvæmdastjóri Keðjunnar, eins og áður segir, og hún segist ávallt hafa haft brennandi áhuga á málefnum barna og unglinga. “Á menntaskólaárunum dreymdi mig um að verða umboðsmaður barna og brann fyrir réttindum þeirra. Auk þess hef ég tekið virkan þátt í störfum tengdum börnum og fjölskyldum þeirra. Ég var  til dæmis um árabil í skólanefnd grunnskólanna í Garðabæ, formaður foreldrafélaga bæði í leikskólanum, grunnskólanum í knattspyrnudeildinni og í skólanefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ.  Þegar ég sá svo þetta starf auglýst þá sá ég hvar ég gæti nýtt eldmóð minn og krafta í þágu barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík svo ég sótti um og hér er ég í dag.“ Halldóra segir að það veiti sér mesta ánægju að fylgjast með og heyra af þeim góða árangri sem starfsmenn Keðjunnar hafa náð með foreldrum og börnunum sem þau eru að þjónusta. „Það er yndislegt að heyra foreldra tala um hvernig námskeið í foreldrafærni, svokölluð PMTO meðferð hefur gjörbreytt lífi þeirra og barna þeirra. Önnur meðferð sem nefnist PMTO SPARE verkefnið hefur hjálpað flóttafólki og börnum þess að aðlagast hér á landi. Það eru margir mikilvægir hlekkir sem mynda keðju í kringum barn og fjölskyldu þess. Það veitir mér mikla ánægju að fá staðfestingu á því að okkar hlekkir séu sterkir og stuðli að bættu lífi barna og fjölskyldna þeirra.“

#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace