Vinnuskóli Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að veita nemendum góða upplifun og fræðslu í fyrstu skrefum þeirra á vinnumarkaði. Vinnuskólinn veitir meðal annars fræðslu um launaseðla, ferilskrár, vinnusiðferði og tekjuskatt. Fræðslan tekur mið af aldri nemenda.
Helsta hlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Flest verkefni nemenda snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni.
Þriðjudaginn 2. júlí hófu um 800 ungmenni störf í Vinnuskóla Reykjavíkur á 27 starfsstöðvum víðsvegar um borgina. Fyrsti hópurinn lauk störfum 1. júlí og var það óvenjulega stór hópur eða 2.200 unglingar.
Heimspekilegar umræður á Klambratúni
Við heilsuðum upp á hóp sem er að störfum á Klambratúni. Lilja og Sara voru að tína arfa en þetta var þeirra annar vinnudagur. Þær byrja hálf níu á morgnanna og eru að störfum til hálf fjögur. Þeim finnst gott að vinna utandyra.
Margrét hefur unnið áður í Vinnuskólanum og finnst gott að vera úti undir beru lofti en síðasta sumar var hún í innivinnu.
Guðni Thorlacius er leiðbeinandi hópsins á Klambratúni og hefur gaman af. Hann var með hóp í Breiðholti í júní og fannst gott að vinna þar líka.
„Það er skemmtilegt að umgangast krakkana,“ segir Guðni en um leið og þau heyra að hann sé að læra heimspeki í Háskólanum, fara þau að spyrja heimspekilegra spurninga. Hver er tilgangur vinnu? Hvað er heimspeki? Hver er tilgangur lífsins?