Gleðiganga – Reykjavík Pride 2022

Frá Gleðigöngu 2019.

Gleðigangan tekur yfir miðborgina laugardaginn 6. ágúst.  Gangan fer af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju og sem leið liggur niður Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg að Hljómskálagarði þar sem fram fer hátíðardagskrá. Reykjavíkurborg hvetur fólk til að koma gangandi, hjólandi eða með strætó í bæinn því miklar takmarkanir verða á umferð.

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en hún eykur sýnileika hinsegin fólks og er stuðningur við réttindabaráttu þess. Í göngunni sameinast hinsegin fólk undir einum hatti og gengur í gleði fyrir málefni hinsegin baráttunnar ásamt fjölskyldu og vinum.  Í ár er lögð sérstök áhersla á að minna á réttindabaráttu hinsegin fólks en víða hefur verið bakslag í réttindum þess og meira hefur borið á fordómum og hatri í garð hinsegin fólks en áður.

Reykjavík er stolt

Borgarstjóri og borgarfulltrúar taka þátt í göngunni í ár undir yfirskriftinni Reykjavík er stolt. Talin verða upp verkefni og þættir sem borgin er stolt af um leið og þau ávarpa að baráttu hinsegin fólks er hvergi nærri lokið og borgarstjórn styður málstaðinn. Borgarstjóri og borgarfulltrúar munu bera borða og halda á mismunandi hinsegin fánum en borgin er stolt af því starfi sem þar er unnið eins og t.d. Hinsegin félagsmiðstöðinni.

Að baki þessu atriði liggur sú hugmynd og stefna að borgarfulltrúar hlusti á, vinni með og styðji hinsegin samfélagið í Reykjavík og víðar, Við stöndum með þeim öllum – stolt.  

Auk þessa verður sendiherra Ósló boðið að taka þátt í göngunni með borgarstjóra og borgarfulltrúum en fulltrúar hinsegin fólks í Noregi eru sérstakir gestir í göngunni í ár vegna skotárásanna í Ósló 25. júní sl. þar sem árásinni var sérstaklega beint að hinsegin fólki.

Götulokanir

Útfærsla götulokana er að takmarkanir verða á umferð frá morgni laugardagsins fram eftir degi eða frá kl. 10-18. Lokanir eru frá Hallgrímskirkju og á öllum aðliggjandi götum göngunnar þ.e. niður Skólavörðustíginn, Bankastræti, Lækjargötu, Fríkirkjuveg og Sóleyjargötu (sjá mynd). 

Strætó gengur allan daginn. Athugið breytta áætlun á meðan á götulokunum stendur – sjá straeto.is. Í miðborginni eru bílastæðahús sem oft hafa verið illa nýtt á meðan hátíðahöldin standa yfir. Upplýsingar um bílastæðahús og fjölda lausra stæða á hverjum tíma má finna á bilahus.is. Það er því engin ástæða til að leggja ólöglega og ef veður leyfir er kannski bara best að skilja bílinn eftir heima.

Kort yfir götulokanir