Gleði á Hverfisgötu

Umhverfi Framkvæmdir

""

Mikið var um dýrðir á Hverfisgötunni í dag þegar verkáfanga í endurnýjun Hverfisgötunnar var fagnað. Lúðrablástur, skrúðganga, sirkusfólk og mannlíf setti gleðilegan blæ á götuna.

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík ávarpaði gesti við opnunina og sagði þetta ánægjulegan viðburð og að mörgu leyti mætti líkja Hverfisgötunni við pönkara, sem nú væri kominn i dragt.  Árangurinn væri ánægjulegur þó vissulega skyggði það á hve framkvæmdir hefðu dregist. Hann þakkaði verslunarmönnum þrautseigjuna og biðlundina og fyrir þeirra hönd tók Anna Björnsdóttir við blómvendi með ósk um bjartari tíð. Að því mæltu klipptu Anna og Jón Grarr á borða og gatan var formlega opnuð.

Í tilefni dagsins mættu fornbílar á götuna og settu þeir svip á þessa sögulegu verslunargötu. Þá bauð Bíó Paradís upp á ókeypis Reykjavíkurmyndahátíð í tilefni dagsins.

Hverfisgatan verður hækkuð í vor

Á Hverfisgötu frá Klapparstíg upp fyrir Vitastíg hefur allt yfirborð götu og gangstétta verið  endurnýjað, ásamt lögnum sem komnar voru á tíma. Malbikaðar hjólareinar eru beggja vegna götu og er snjóbræðsla undir þeim sem og undir gangstéttum og gatnamótum, sem eru steinlögð og upphækkuð.  Í vor þegar veður leyfir verður um 5 cm malbikslagi bætt á götuna. Við það minnkar hæð kantsteina og aðgengi batnar. Rétt er að hafa þetta í huga þegar aðstæður fyrir hreyfihamlaða eru skoðaðar.

Gagngerar endurbætur og bætt aðgengi

Farið var í ýmsar aðgerðir til að bæta aðstæður gangandi og hjólandi vegfarenda um götuna og einnig voru bættar aðstæður fyrir blinda, sjónskerta og hreyfihamlaða, en við hönnun götunnar var haft samráð við fulltrúa frá Blindrafélaginu og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga um hönnunarútfærslur. Settar verða sérstakar leiðilínur og varúðarsvæði í gönguleiðir á gatnamótum og við strætóbiðstöðvar.

Strætóbiðstöðvum við götuna var fjölgað og styttir það leiðir að þeim. Flestar strætóbiðstöðvar við götuna eru upphækkaðar til að auðvelda inngöngu allra farþega í vagnana. Rampar liggja uppá strætóbiðstöðvarnar beggja vegna við þær til að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra. Allar göngu- og hjólaleiðir eru upphitaðar sem bætir mjög aðstæður allra vegfarenda.  Útbúið var sérstakt stæði fyrir hreyfihamlaða á Hverfisgötu við Vatnsstíg. Þar er hæðarmunur við gangstétt 2 cm.

Mögulegt að bæta aðgengi í hús

Við hönnun göturýmisins var í megindráttum miðað við að stéttar við hús yrðu í sömu hæð og þær voru fyrir framkvæmdir, en frágangi upp við hús er víða ólokið. Reynt er að aðlaga hæðir við innganga en frágangur við hús á tröppum og römpum er hins vegar alfarið á ábyrgð viðkomandi húseigenda. Ef gera á rampa við inngang í hús þá þarf að leggja inn teikningar af því til samþykktar hjá byggingarfulltrúa en það er á ábyrgð húseiganda. Reykjavíkurborg vill hins vegar koma að því að finna lausnir með húseigendum til að bæta aðgengi innan þeirra marka sem raunhæft er, án þess að gengið sé á gæði annarra vegfarenda.