Gefum öndunum frið fyrir brauðgjöfum

Umhverfi Mannlíf

""

Reykjavikurborg vill minna fólk á að nú fer ungatíminn í hönd við Tjörnina í Reykjavík. Því er fólk beðið um að gefa fuglum ekki brauð við Tjörnina. Endurnar hafa nóga fæðu í Tjörninni yfir sumartímann til að geta framfleytt sér og ungum sínum. Sílamávurinn leitar hins vegar í brauðið en hann er einnig hrifinn af andarungum, sérstaklega minnstu ungunum þegar þeir eru nýklaktir úr eggjum.

Undanfarin ár hafa Reykvíkingar og innlendir gestir virt þessi tilmæli borgarinnar og hætt að gefa brauð en nokkuð hefur borið á því að erlendir gestir stundi brauðgjafir við Tjörnina yfir sumarið.  Borgin hvetur alla vini Tjarnarinnar til að biðja þá vinsamlega um að gera það ekki.

 Sílamávurinn er farfugl sem lætur sig hverfa á haustin og er því aðeins til vandræða yfir sumartímann.  Ekkert er að því að leyfa börnum að gefa öndunum á Tjörninni brauð á veturnar þegar hart er í búi hjá öndum, gæsum og álftum sem kjósa sér Tjörnina sem vatnsból yfir vetrartímann. Nýlegar framkvæmdir við fuglafriðlandið í Vatnsmýrinni, sem Reykjavíkurborg, Norræna húsið og Háskóli Íslands stóðu að, hafa skapað öndum, gæsum, kríum og ýmsum vaðfuglum einstakt griðland í hjarta borgarinnar. Þar hafa þessi skemmtilegu fuglar frið til að verpa fyrir ágangi manna og katta en því miður ekki fyrir mávum og öðrum vargfugli.

Reykjavíkurborg hvetur sem flesta til að njóta Tjarnarinnar, Vatnsmýrarinnar og Hljómskálagarðsins í sumar því svæðið er sérstaklega hentugt til útiveru og samverustunda. Komin eru ný leiktæki og salernisaðstaða í Hljómskálagarðinn sem bætir enn aðstöðuna fyrir gesti í þeim fallega garði.