Fyrstu smáhúsin fyrir heimilislaust fólk komin á sína staði

Velferð Umhverfi

""

Fimm smáhús sem ætluð eru heimilislausu fólki voru í gær flutt frá Sundahöfn í Gufunes. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúar þeirra geti flutt inn í nóvember. Fimmtán hús til viðbótar fara á sex aðra mismunandi staði í Reykjavík á næsta árinu.   

Í gærmorgun mátti sjá bílalest fikra sig upp eftir Ártúnsbrekkunni og í átt að Gufunesi, þar sem fyrstu smáhúsin af nýrri tegund voru sett niður. Húsin eru ætluð heimilislausu fólki og ef áætlanir ganga eftir geta fyrstu íbúar þeirra flutt inn í nóvember. Í heild er áætlað að tuttugu hús af þessari tegund rísi á sjö mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.

Við hönnun smáhúsanna var mikið lagt upp úr því að þau væru smekkleg og féllu vel að umhverfi sínu. Hvert þeirra er 30 fermetrar, í öðrum enda þess er stofa og eldhús en opinn svefnkrókur í hinum með góðu skápaplássi. Í miðjunni er baðherbergi og opið anddyri. Úr stofu er gengið út á lítinn pall með skjólvegg. Lögð er áhersla á að umhverfi húsanna verði aðlaðandi, með gróðri og öðrum aðgerðum, og þá verður gætt sérstaklega að lýsingu við húsin. 

Smáhúsin eru öruggt húsnæði fyrir einstaklinga með vímuefna- og geðvanda, allan sólarhringinn. Því fylgir að þeir hafa greiðari aðgang að þjónustu og stuðningi. Skilyrði fyrir því að einstaklingur fái smáhúsi úthlutað er að hann sé í virkri þjónustu vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar (VoR). Teymið starfar eftir Húsnæði fyrst-hugmyndafræðinni sem gengur út á að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni þjónustu þvert á kerfi. 

Með tilkomu smáhúsanna er þeim húsnæðiskostum sem standa heimilislausu fólki fjölgað, eins og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, bendir á: „Þetta er gríðarlega mikilvægt því húsnæði er oft fyrsta skrefið til að ná fótfestu í lífinu. Húsnæði fyrst stefnan hefur skilað meiri árangri víða um heim en áður hefur náðst til að draga úr langtímaheimilisleysi. Jafnframt leiðir þjónustan til betri lífsgæða þjónustuþega og aðstandenda og dregur úr álagi á nærsamfélag, stofnanir ríkis og sveitarfélaga og dregur þar með úr kostnaði,“ segir Heiða.

Reykjavíkurborg tekur mið af reynsu annarra þjóða í vinnu fyrir heimilislaust fólk. Víða hafa svipaðir búsetumöguleikar verið notaðir, til að mynda í Belgíu, Finnlandi og Svíþjóð. Grasrótarhreyfingar beggja vegna Atlantshafsins hafa barist fyrir þeim en „The Tiny House Movement“ á meðal annars rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna.

Reynt er að mæta óskum íbúanna sjálfra varðandi hvar þeir búa. Þannig eru líkur á því að þeir sem fái smáhúsi úthlutað í tilteknu hverfi lifi nú þegar lífi sínu á þeim slóðum, eigi þar félagslegar tengingar og séu þegar eða hafi hag af því að nýta þá þjónustu sem í boði er í hverfinu. Þetta er grundvallarbreyting, því með þessu móti verður íbúi ekki lengur heimilislaus, heldur einn af íbúum hverfisins. Hann lifir sínu lífi innan veggja síns heimilis, rétt eins og aðrir íbúar hverfisins.