Fylgst vel með börnum í viðkvæmri stöðu

Covid-19 Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti einróma á fundi sínum í dag að leggja sérstaka áherslu á vernd barna í viðkvæmri stöðu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Sérstaklega verði litið til nemenda með annað móðurmál en íslensku, nemenda í skólaforðun og unglinga í áhættuhegðun.

Ráðið beinir því til sviðsstjóra á skóla- og frístundasviði að móta verklag sem tryggir, að a.m.k. út þetta skólaár, verði fylgst vel með börnum í viðkvæmri stöðu í starfi leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Verklagið verði unnið í samráði við þjónustumiðstöðvar borgarinnar.  

Sett verði á fót viðbragðsteymi í hverjum borgarhluta sem samhæfi vinnu skóla, skólaþjónustu og frístundamiðstöðvar í málefnum einstakra barna og hópa í viðkomandi borgarhluta. Því til viðbótar verði sett á fót samhæfingarteymi sem hafi yfirsýn yfir málefni barna og unglinga í skóla- og frístundastarfi borgarinnar sem metin eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna áhrifa COVID-19.

Í þessu samhæfingarteymi sitji fulltrúar skóla- og frístundasviðs, skólaþjónustu, frístundamiðstöðva, skólastjórnenda og kennara auk fulltrúa skóla- og frístundaráðs og fundi hópurinn vikulega fram til 15. júní 2020. Að þeim tíma loknum verði metið hvort þörf er á framhaldi þeirrar vinnu.

Sjá tillögu og greinargerð Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata.