Frummatsskýrsla um landfyllingu í Nýja Skerjafirði

Skipulagsmál

""

Reykjavíkurborg hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar við landfyllingu í Nýja Skerjafirði. Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir sem skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 11. janúar 2022 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar: skipulag@skipulag.is.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur/ Olíubirgðastöð Shell við Skerjafjörð á loftmynd frá 1930. Meðfram veginum sem lagður var að olíustöðinni reis fyrsta íbúðabyggði.

Reykjavíkurborg hafði frumkvæði að því að setja framkvæmd landfyllingar í Nýja Skerjafirði í mat á umhverfisáhrifum til að fá umsagnir og athugasemdir áður en framkvæmdir hefjast og til að leggja drög að mótvægisaðgerðum. Samkvæmt nýsamþykktri aðalskipulagsbreytingu fyrir Nýja Skerjafjörð er gert ráð fyrir 1.300 íbúða byggð á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að nýtt deiliskipulag íbúðabyggðar hins nýja hverfis verði sett fram í tveimur áföngum sem byggja á sýn rammaskipulags frá 2018 fyrir nýja byggð í Nýja Skerjafirði.

Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 ha landfyllingu í Skerjafirði. Svæðið er staðsett austan núverandi byggðar í Skerjafirði og sunnan aflagðrar NA–SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar. Landfyllingin er liður í þéttingu byggðar og uppbyggingu nýs hverfis í suð-vesturhluta borgarinnar í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 - 2030.

Mótuð til að líkjast náttúrulegri strönd

Gert er ráð fyrir að hluti byggðarinnar muni rísa á landfyllingu í 2. áfanga hins nýja deiliskipulags. Uppbyggingin er hluti af uppbyggingu nýs borgarhluta í vesturhluta Reykjavíkurborgar, Vatnsmýri, sem er hluti af framfylgd meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010 – 2030 sem kveður á um þéttingu byggðar, fjölgun íbúa í vesturhluta borgarinnar og aukningu á notkun vistvænna ferðamáta. Landfyllingin kemur til með að liggja með strönd á um 700 m kafla og ná um 100 m út í sjó. Í landfyllinguna er áformað að nýta m.a. efni sem fellur til við framkvæmdir á þéttingarreitum í Reykjavík, vestan Elliðaár.

Strandlengjan verður mótuð þannig að hún líki eftir náttúrulegri strönd og leitast verður við að þar geti myndast leirur á ný í stað þeirra sem raskast. Landfyllingin verður talsvert umfangsminni en aðalskipulag gerði ráð fyrir. Markmiðið með mati á umhverfisáhrifum er m.a. að meta umhverfisáhrif en einnig að skilgreina mótvægisaðgerðir og undirbúa þannig vandaða ákvarðanatöku.

Kynning á frummatsskýrslunni

Núverandi strönd er röskuð eftir áratuga starfsemi olíubirgðastöðvar við flugvöllinn en vissulega verður með fyllingu að hluta til raskað lífríki sem telst verðmætt. Leitast verður við að líkja eftir náttúrulegri strönd með því að mynda fjöru með mismunandi kornastærð í líkingu við þá sem er nú þegar á svæðinu. Strandir austan og vestanvert eru hverfisverndaðar og ná alla leið að Gróttu í vestri. Þess má einnig geta að í gangi er vinna við friðlýsingu fjörusvæðisins vestan við Skeljanes.

Í þessari frummatsskýrslu er gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og áhrif hennar metin á eftirfarandi þætti: Gróður, strand- og sjávarlífríki, fuglalíf, strauma, fornminjar, verndarsvæði, landslag og ásýnd, umferð, umferðarmyndun og öryggi, hljóðvist og loftgæði, útivist, hjóla- og göngustíga. Framkvæmdin er talin hafa óveruleg áhrif á strauma, fornminjar, umferð, umferðarmyndun- og öryggi, hljóðvist og loftgæði ásamt útivist og göngustíga. Hins vegar telur framkvæmdaraðili að framkvæmdin hafi talsvert neikvæð áhrif á fuglalíf og verndarsvæði, og verulega neikvæð áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Einnig er áformað að bjóða upp á kynningarfund sem verður auglýstur síðar.

Tenglar