Frístundastyrkur hækkar um 50 prósent fyrir hvert barn

Heilsa Íþróttir og útivist

Börn að leik

Borgarráð hefur samþykkt að hækka frístundastyrk í 75.000 krónur fyrir hvert barn þann 1. janúar 2023. Frístundastyrkurinn er ætlaður 6-18 ára börnum og unglingum með lögheimili í Reykjavík.

Hægt er að nýta styrkinn fyrir íþrótta-, lista- og tómstundastarf. Samþykktin byggir á tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem samþykkt var í því ráði síðastliðinn mánudag og er í samræmi við ákvæði í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar auk þess sem fleiri flokkar í borgarstjórn hafa kynnt sambærileg áform.

Frístundastyrkur eykur jöfnuð, heilsu og hamingju

Markmiðið með hækkun frístundastyrksins að þessu sinni er að auka enn frekar þátttöku barna í virkum frístundum í borginni. Frístundastyrkurinn er samfélagsverkefni sem hefur það að markmiði að tryggja að opinber stuðningur skili sér sem best og nýtist vel þeim sem vegna efnahags eða félagslegra aðstæðna eiga ekki jafn auðvelt og aðrir að taka þátt í skipulögðu frítímastarfi. Styrkurinn er einnig mikilvægur liður í Lýðheilsustefnu borgarinnar því með honum er verið að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju svo að börn hafi tækifæri á að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa.

Hækkun frístundastyrks renni til barnafjölskyldna

Mikilvægt er að styrkurinn nýtist fyrst og fremst til að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu tómstundastarfi. Íþróttabandalag Reykjavíkur mun hér eftir sem hingað til fylgjast með þátttökugjöldum félaga sinna og gæta þessa að iðkendagjöld þróist í takt við almennt verðlag þannig að hækkun frístundastyrksins renni fyrst og fremst til barnafjölskyldna í borginni.

Frístundastyrk Reykjavíkurborgar var komið á árið 2006 undir heitinu Frístundakortið. Styrkurinn var í upphafi greiddur fyrir seinni hluta ársins 2007 að upphæð 12.000 krónur. Árið 2008 var styrkurinn síðan greiddur í fyrsta skipti allt árið og var upphæðin þá 25.000 krónur. Þann 1. janúar 2015 var styrkurinn hækkaður í 35.000 krónur  og svo var hann hækkaður í 50.000 krónur þann 1. janúar 2017.

Kostnaður borgarinnar vegna hækkunar frístundastyrksins nemur 443 milljónum króna.