Friðarsúlan skín skærar eftir endurbætur

Framkvæmdir Menning og listir

Ragnar Th. Sigurðsson
Friðarsúlan. Mynd tekin í myrkri frá borginni, Esjan í baksýn, sjór í forgrunni. Bláir tónar, súlan lengst til hægri.

Framkvæmdir við endurbætur á Friðarsúlunni í Viðey eru hafnar. Þær ganga samkvæmt áætlun og á þeim að ljúka áður en súlan verður tendruð, þann 9. október næstkomandi.

Alllengi hefur legið fyrir að ráðast þurfi í endurbætur á Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey. Verkefnið er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar endurbætur og uppfærslur á tæknibúnaði og hins vegar lagfæringar á „óskabrunni“ sem ljóssúlan rís upp úr og palli umhverfis brunninn sem þakinn er þrenns konar íslensku grjóti.

Í kjölfar verð- og hæfnikönnunar var samið um smíði og uppsetningu tæknibúnaðar við ítalska framleiðendur sem komu að smíði og uppsetningu tæknibúnaðarins í upphafi. Búnaður var fluttur til landsins í sumar og út í Viðey 23. júlí, þar sem tæknimenn frá fyrirtækinu unnu að uppsetningu fram í ágúst. Vinnan gekk samkvæmt áætlun og hefur búnaður verið prófaður og virkar vel. Fyrir liggur að fínstilla geislann í lok september og verður sú vinna unnin af tæknimönnum safnsins. Viðgerð á steinlögn hefst á næstu dögum og á henni að ljúka fyrir tendrun þann 9. október.

Þörf áminning um friðarboðskap

Eftir endurbæturnar mun Friðarsúlan lýsa bjartari og þéttari en fyrr. Hún mun því gegna enn betur hlutverki sínu sem sterkt kennileiti í borginni og þörf áminning um friðarboðskap í núverandi heimsmynd. Orkuþörf verksins minnkar, viðhald verður auðveldara sem og stilling verksins fyrir tendrunartímabil hvers árs.

Verkefnið nú er fjármagnað af sömu aðilum og stóðu að gerð Friðarsúlunnar á sínum tíma; Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur og sjóði á vegum Yoko Ono. Heildarkostnaður er áætlaður um 33 milljónir króna.

Friðarsúlan í Viðey er listaverk eftir Yoko Ono sem hún tileinkaði eiginmanni sínum heitnum, tónlistarmanninum John Lennon. Friðarsúlan er tendruð á fæðingardegi hans, 9. október, ár hvert og slökkt á henni á dánardegi hans 8. desember, en hann var myrtur árið 1980.