Framkvæmdir á Laugavegi við Snorrabraut

Framkvæmdir Skipulagsmál

Tölvuteiknuð mynd af 1. áfanga við Hlemm.

Framkvæmdir hefjast nú við fyrsta áfangann við að umbreyta Hlemmsvæðinu líflega borgarbyggð. Kaflinn sem um ræðir liggur frá Mathöllinni á Hlemmi eða Laugavegi 105 við Hlemm og að Snorrabraut. Verktakinn Alma Verk stefnir á að loka svæðinu mánudaginn 19. september. Gangstéttum beggja vegna verður haldið opnum en unnið í götunni til áramóta. Þá verður gert hlé að verkinu.

Í apríl 2023 hefst svo vinna aftur og unnið á því svæði þar sem gangstéttirnar liggja. Gangandi og hjólandi verða á götunni á meðan því stendur.

Hvað stendur til?

Það sem er á döfinni núna á Laugavegi er að umbreyta svæðinu með gróðri, setsvæðum, hjólastæði og óformlegum leikrýmum. Núverandi fráveitulögn verður endurnýjuð með tvöföldu kerfi regnvatns og skolps. Fyrirliggjandi heimæðar og niðurföll verða tengd nýja kerfinu auk nýrra svelgja í regnbeðum. Hluti hitaveitulagna í götustæði verða endurnýjaðar. Samfara endurnýjun lagna verður götukassi endurnýjaður að fullu með fullnaðarfrágangi undirbyggingar í samræmi við snið, gróðurbeðum blágrænna lausna, nýrri hellulögn í gang- og götustæði ásamt nýju snjóbræðslukerfi undir hellulögn.

Verktaki og vinnutími

Verktakinn er Alma Verk og verður svæðinu lokað fyrir bílaumferð í næstu viku. Unnið verður frá 8-18 á virkum dögum og frá 8-16 á laugardögum. Ekki verður unnið á sunnudögum. Reykjavíkurborg og Veitur hafa umsjón með verkinu. Gætt verður að því að aðgengi gangandi vegfarenda verði gott og aðgengi í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu verður tryggt. 

Akstursleiðir

  • Hjáleið 1: Laugavegur lokaður við Rauðarárstíg - hjáleið um Rauðarárstíg og Grettisgötu.
  • Hjáleið 2: Laugavegur lokaður við Rauðarárstíg - hjáleið um Katrínartún, Borgartún og Snorrabraut.
  • Snorrabraut þrengd að hluta framhjá gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegar. 
  • Gönguþverun yfir Snorrabraut norðan Laugavegar haldið opinni.

Frekari upplýsingar um Hlemmsvæðið