Framkvæmdaáætlun við Fossvogsskóla að skýrast

Stjórnsýsla Skóli og frístund

""

Vinna við undirbúning og hönnun framkvæmda við Fossvogsskóla er í fullum gangi. Skipulagning skólastarfs á næsta ári er komin vel á veg og verða tillögur kynntar skólasamfélaginu á morgun.

Teymi skipað fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og verkfræðistofunum Eflu og Verkís vinnur að því að fara yfir niðurstöður og tillögur Eflu að frekari framkvæmdum og úrbótum á húsnæði Fossvogsskóla. Endanlega skýrsla Eflu um ástand skólabygginga var afhent Reykjavíkurborg í dag, þriðjudaginn 29. júní og er hún aðgengileg á vefsíðu borgarinnar reykjavik.is.

Í minnisblaði Eflu frá 18. maí síðastliðnum kemur fram að ekki hefur tekist að uppræta allar rakaskemmdir í skólanum. Lagt er til að Reykjavíkurborg ráðist í umtalsverðar framkvæmdir til að uppfæra skólann að nútíma kröfum um byggingatækni og öryggismál. Tillögur að úrbótum sem koma fram í minnisblaðinu voru kynntar á fundum með skólaráði, starfsfólki og foreldrum barna við skólann í lok maí og vinna við að undirbúa framkvæmdir hefur staðið yfir síðan.

Framkvæmdir gangi hratt og örugglega fyrir sig

Ríkur skilningur er á mikilvægi þess að vinna við gerð framkvæmdaáætlunar gangi hratt og örugglega fyrir sig hjá teyminu, og hafa þegar verið gerð drög að teikningum og unnið að öðrum undirbúningi. Þá eru nú þegar hafnar framkvæmdir við frekari endurbætur á húsnæðinu.

„Við í teyminu erum að kafa ofan í niðurstöðurnar frá Eflu með hliðsjón af þeim viðgerðum sem nú þegar hafa verið gerðar. Við munum vinna að gerð áætlana með tilliti til margvíslegra þátta svo sem forgangsröðun á framkvæmdum, útboðum, leyfisveitingum og hvernig mögulegt er að hefja skólastarf sem fyrst aftur í Fossvogsskóla.” segir Ámundi Brynjólfsson sem stýrir skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis og skipulagssviði. 

Tilhögun skólastarfs 

Samhliða undirbúningi framkvæmda hefur verið unnið að skipulagi skólastarfs á næsta skólaári. Unnið er með tillögur og óskir sem komu fram á fundum með foreldrum og starfsmönnum og settar upp sviðsmyndir af mögulegum útfærslum. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að endanleg niðurstaða verði unnin í samráði við skólasamfélagið og verða tillögur kynntar á fundi með fulltrúum foreldra og starfsfólks á morgun.