Forsetinn heimsótti leikskólann Brekkuborg

Skóli og frístund

Forsetinn Íslands í heimsókn í Brekkuborg

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heimsótti leikskólann Brekkuborg í gær og bar heimsóknin upp á afmælisdag forsetans. Móttökurnar voru glæsilegar enda öll spennt að hitta forsetann og að gróðursetja með honum birkitré á lóð skólans.

Börnin hafa verið að læra um lýðveldið og forsetana

„Við fengum þessa hugmynd að bjóða honum því það eru 80 ár liðin frá stofnun lýðveldisins. Fannst um að gera að athuga hvort hann gæti komið því við höfum verið að læra um lýðveldið og forsetna,“ segir Kristín Auður Harðardóttir, aðstoðarleikskólastjóri í Brekkuborg, og bætir við að Guðni hafi sjálfur valið dagsetninguna sem reyndist vera afmælisdagur hans.

Forsetinn Íslands í heimsókn í Brekkuborg

Sungu afmælissönginn fyrir Guðna

Börnin sungu afmælissönginn fyrir Guðna forseta og eftir að gróðursetningu var lokið sungu þau Öxar við ána með hárri raust. Kristín Auður segir skemmtilegt að forsetinn hafi þegið boðið því það smell passi inn í það sem þau eru búin að vera að gera. „Það er æðislegt að hann skuli gefa sér tíma. Börnin hafa verið mjög spennt því þetta er svo mikil upplifun.“

Hrafnar búa á lóð leikskólans

Það er jafnan mikið um að vera í Brekkuborg því í stóru grenitré í garðinum er laupur þar sem hrafnafjölskylda býr. Foreldrarnir hafa fengið nöfnin Hrefna og Hroði en ungarnir sem nú eru orðnir ansi stórir og annar líklega floginn úr hreiðrinu fengu nöfnin Hrafnkell og Hrafntinna.