Forhönnun að nýju Austurstræti kynnt

Borgarhönnun

Teiknuð mynd af fólki á gangi í Austurstræti. Tré og hús í kring.

Forhönnun að nýju Austurstræti var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun. Ýtir hönnunin undir að gatan verði áfram ein mikilvægasta gata miðborgarinnar og mannlíf og rekstur geti dafnað á svæðinu til framtíðar. Austurstræti verður nútímalegt borgargöngusvæði, þar sem „ys og læti“ fá að ríkja áfram með pláss fyrir fólk að tala saman, fólk á hlaupum, í innkaupum og líka rými til að leika, slaka á og njóta veitinga.

Verkefnið byrjaði með samkeppni með fyrir um tveimur og hálfu ári og nær yfir stærra svæði en Karres en Brands og Sp(r)int Studio báru sigur úr býtum í samkeppninni og kynntu jafnframt þessa nýju hönnun. Nú þegar er búið er að sýna hönnun á breyttu og líflegra Lækjartorgi en nú er komið að næsta kafla.

Betri tenging við Lækjartorg

Austurstræti myndar ásamt Bankastræti og Laugavegi einn helsta gönguás Reykjavíkur, sem tengir saman mörg af mikilvægustu borgarrýmum, byggingum og starfsemi í miðborginni. Hönnunin stuðlar einmitt að betri og skemmtilegri tengingu á milli Lækjartorgs og Austurstrætis og fær gatan enn meira mikilvægi þegar framtíðar Borgarlínustöð kemur við Lækjargötu.

Framtíðarsýn Austurstrætis felst í því að ná fram heildstæðu yfirbragði þar sem hið gamla mætir hinu nýja á sannfærandi hátt. Þetta þýðir að styrkja þarf göngugötuna sem kjarnasvæði sem gleður augað og hvetur til jákvæðra samskipta á milli mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa samhliða því að draga fram sögu svæðisins með áhugaverðum hætti.

Aðlaðandi bakgrunnur fyrir margbreytilegt borgarlíf

Göngugatan á að virka sem einfaldur en aðlaðandi bakgrunnur fyrir margbreytilegt borgarlíf þegar farið er frá Skólavörðustíg og Laugavegi framhjá Lækjartorgi í átt að Ingólfstorgi. Því er náð fram með skemmtilegum gróðursvæðum og fjölnota götusvæðum þar sem verður að finna bekki, lýsingu, rými fyrir leik og útisvæði sem geta nýst kaffihúsum og veitingastöðum þó áherslan sé á götuna sem almannarými.

Tré verða gróðursett í þyrpingum og gefa hlýlegt yfirbragð og hjálpa sömuleiðis til við að mynda skjól með því að stemma stigu við vindstrengjum. Vandað verður valið á trjám eftir aðstæðum og mun undirgróður verða fjölbreyttur. Trén verða lauftré svo það opnast fyrir birtuna á veturna.

Pósthússtræti var eitt sinn hlið inn í Reykjavík þegar komið var í borgina sjóleiðis og eftir endurhönnunina munu gatnamót Pósthússtrætis og Austurstrætis njóta sín betur en þar standa margar glæsilegar byggingar. Gert er ráð fyrir að meirihluti hjólastæðanna á svæðinu verði staðsett á Pósthússtræti.

Samráð og næstu skref

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Austurstræti. Einnig verður hafist handa við endurskoðun deiliskipulags Kvosarinnar sem göngusvæðis í samræmi við umferðarskipulag Kvosarinnar, hönnunarforsendur og fyrirliggjandi forhönnun á svæðinu, í Kirkjustræti, Austurstræti og á Lækjartorgi.

Í undirbúningsferlinu og á framkvæmdatíma verður haft samráð og virkt samtal við viðeigandi hagsmunaaðila svo sem íbúaráð, aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og atvinnulíf á svæðinu.

Fólk og tré og hús.

Tenglar