Fimm leikskólar borgarinnar verða opnir til kl. 17.00

Skóli og frístund

Leikskólabörn að leik á leikskólalóð.

Frá og með áramótum verða fimm leikskólar í borginni opnir til klukkan 17.00. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára, eða til 31. desember 2024.

Þetta fyrirkomulag byggir á tillögum stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs, en frá því að heimsfaraldurinn skall á hafa leikskólar verið opnir til kl. 16.30. Þeir leikskólar sem verða opnir lengur en aðrir eða til kl. 17.00 eru Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal, Bakkaborg í Breiðholti, Klettaborg í Grafarvogi og Heiðarborg í Árbæ. Sjötti leikskólinn, Ævintýraborg við Nauthólsveg í Hlíðum bætist við þegar hann tekur til starfa á fyrri helming næsta árs. 

Ákveðið var að bjóða upp á lengri opnunartíma í leikskólum í hverjum borgarhluta til að koma til móts við þann hóp foreldra sem þurfti á vistun að halda eftir kl. 16.30 en þegar opnunartími leikskólanna var breytt 2020 voru 169 börn með dvalarsamning fram yfir
kl. 16.30. Af þeim eru 42 börn nú með dvalarsamning fram yfir kl. 16.30. Foreldrar á annan tug þessara barna hafa óskað eftir að halda lengri dvalartíma fyrir börn sín.

Leikskólabörn í Reykjavík voru 1. október 2021 um 5.300.  

Sumaropnun leikskóla
Líkt og undangengin sumur verða nokkrir leikskólar borgarinnar með svokallaða sumaropnun. Þrír leikskólar verða opnir í allt sumarið; Hagaborg, Langholt og Bakkaborg.  

Tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla hefur staðið yfir frá því sumarið 2019 þegar sex leikskólar voru opnir,  einn í hverju hverfi. Sumarið 2021 var þeim fækkað niður í fjóra vegna fárra umsókna í tveimur borgarhlutum, en í fyrrasumar var sótt var um þetta úrræði fyrir tæplega hundrað leikskólabörn.

Samkvæmt reglum um leikskólaþjónustu þurfa börn sem dvelja í leikskólum Reykjavíkurborgar að taka að lágmarki tuttugu virka daga í sumarleyfi.