Fellaskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin í ár

Skóli og frístund

Fellaskóli hlaut Íslensku Menntaverðlaunin 2024

Fellaskóli í Reykjavík hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2024 í flokki skóla- og menntastofnana. Verðlaunin eru veitt menntastofnun sem stuðlað hefur að umbótum er þykja skara fram úr. Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gærkvöldi við hátíðlega athöfn.

Fellaskóli hlaut Íslensku Menntaverðlaunin 2024

Virðing fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika

Fellaskóli fær verðlaun fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti þar sem byggt er á virðingu fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika. Í Fellaskóla er markvisst unnið að málþroska og læsi í samstarfi við leikskólana í hverfinu sem þykir til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Tungumál skólans er íslenska

Helgi Gíslason skólastjóri og tveir fulltrúar nemenda skólans veittu verðlaununum viðtöku á Bessastöðum. Fellaskóli í Reykjavík var stofnaður 1972 og með um 360 nemendur. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og talar á milli 25 og 30 tungumál og þar er litið svo á að fjölbreytileikinn auðgi skólastarfið. Mikil áhersla er lögð á að virðing sé borin fyrir hverjum einstaklingi, bakgrunni og menningu, samhliða því að kappkostað er að tungumál skólans íslenska, verði hverju barni töm til samskipta og náms. Við skólann er einnig starfrækt sérdeild sem ætluð er börnum með einhverfu. 

Í umsögn dómnefndar segir að Fellaskóli hafi undanfarin ár „starfað markvisst að því að þróa sig áfram undir kjörorðinu Draumaskólinn Fellaskóli. Leiðarljós Draumaskólaverkefnisins eru þrjú og fela í sér áherslu á málþroska og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf. Árangurinn af stefnunni er tvímælalaust sýnilegur í starfi skólans.“

Unnið markvisst með orðaforða

„Þetta samstarfsverkefni hefur hlotið hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs og gögn sýna góðar framfarir á þessu sviði. Auk þessa er kennsla í Fellaskóla helguð þeim markmiðum að styðja við málþroska og læsi nemenda, t.d. er unnið markvisst með orðaforða á fjölbreyttan hátt og öll tækifæri nýtt til að styðja við framfarir á því sviði. Í skólanum er litið svo á að allir kennarar séu íslenskukennarar,“ segir ennfremur í umsögn dómnefndar.

Áhersla á tónlist og samstarf við foreldra

Í skólanum er lögð áhersla á leiðsagnarnám þar sem nemendur eru vikir þátttakendur í námi sínu og meðvitaðir um sín markmið. Þátttaka í listviðburðum er stór hluti af starfi Fellaskóla og tónlistarþátttaka hefur vaxið gríðarlega síðustu ár. Þá hefur verið lögð aukin áhersla á samstarf við foreldra sem líka hefur skilað góðum árangri.

Fellaskóli hlaut Íslensku Menntaverðlaunin 2024

Hrafnhildur í Sjálandsskóla verðlaunuð

í flokki framúrskarandi kennara hlaut Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ verðlaun fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.

Helgafellsskóli verðlaunaður fyrir nýsköpunarverkefni

Verðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni fékk Helgaflellsskóli í Mosfellsbæ fyrir verkefnið Snjallræði sem er nýsköpunarverkefni sem nær frá leikskólastigi upp á unglingastig.

Verkmenntaskóli Austurlands starfar með grunnskólunum

Verðlaunin fyrir framúrskarandi iðn- og verkmenntun hlaut Verkmenntaskóli Austurlands fyrir að að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðabyggð um framboð á fjölbreyttum verklegum valgreinum. Öllum nemendum í 9. og 10. bekk grunnskólanna í sveitarfélaginu er boðið að sækja tvö verkleg námskeið í Verkmenntaskólanum.

Hjálpa öðrum með upplýsingatækni

Hvatningarverðlaunin hlutu þeir Bergmann Guðmundsson verkefnastjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri og Hans Rúnar Snorrason kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.

Hægt er að lesa nánar um verðlaunin á síðu Samtaka áhugafólks um skólaþróun og síðu forseta Íslands.

Myndir tók Mummi Lú.