Falsmyndir af byggð norðan Suðurlandsbrautar

Skipulagsmál

""

Að gefnu tilefni þykir Reykjavíkurborg nauðsynlegt að árétta nokkur atriði varðandi mögulega byggð norðan Suðurlandsbrautar sem fjallað er um í aðalskipulagi. Myndir og myndbönd hafa verið í dreifingu á netinu að undanförnu sem sýna hugmyndir sem eru alls ekki komnar frá borgaryfirvöldum og eru ekki í samræmi við heimildir nýs aðalskipulags sem þvert á móti þrengir heimildir til byggðar á þessu svæði frá fyrra aðalskipulagi.

Umræddar hugmyndir að byggð eru ekki komnar frá borgaryfirvöldum.  Ljóst er að þessar hugmyndir samræmast ekki stefnuákvæðum aðalskipulags 2010-2030 um svæðið, bæði varðandi hæðir húsa, sjónása, form og uppbrot bygginga.  Í aðalskipulaginu er  opnað fyrir þann möguleika að skilgreina afmarkaða byggingarreiti norðan Suðurlandsbrautar, næst götunni, en hugmyndin er að byggðin verði í takti við það sem er við Engjateig í dag, ef af yrði. Hvort af uppbyggingu verður á þessu svæði  og þá hvert umfang hennar verður, er til ákvörðunar í samráðsferli í deiliskipulagi.

Í aðalskipulaginu segir eftirfarandi um mögulega uppbyggingu norðan Suðurlandsbrautar (bls. 208).: „Lágreist byggð (2-4 hæðir) sem fellur að götumynd Suðurlandsbrautar og með opnum sjónásum til dalsins. Mögulegt byggingarsvæði er háð því að Suðurlandsbraut verði endurhönnuð og skal miða við að ekki verði gengið á græn útivistar- og íþróttasvæði í Laugardalnum.“ 

Ljóst er að sá sem vann umræddar myndir hefur ekki haft í huga leiðarljós  aðalskipulagsins um svæðið. Vinna við endurhönnun Suðurlandsbrautar og gerð deiliskipulags mun leiða í ljós hversu mikil byggð er ásættanleg á þessu svæði, hvort hún verði takmörkuð við afmörkuð svæði eða horfið alfarið frá henni. Hver niðurstaðan verður hlýtur að velta mjög á þeim viðbrögðum sem koma munu fram í samráðsferli deiliskipulags, frá íbúum og hagsmunaaðilum. Rétt er að undirstrika að hugmyndir um endurhönnun Suðurlandsbrautar miða við að akreinum verði ekki fækkað og áréttað er að skýringarmynd af mögulegri uppbyggingu á svæðinu, sem sett er fram í aðalskipulaginu, lýsir ekki bindandi stefnu borgaryfirvalda.

Að lokum skal því haldið til haga að heimildir um mögulega uppbyggingu á svæðinu norðan Suðurlandsbrautar hafa verið til staðar í aðalskipulagi Reykjavíkur síðan á 7. áratug síðustu aldar. Í nýju aðalskipulagi er mögulegt uppbyggingarsvæði hins vegar þrengt verulega til að tryggja að ekki verði gengið á útivistarsvæði Laugardalsins.

Vinna við deiliskipulag á þessu svæði hefur ekki verið tímasett og er ekki hafin.