Fallið frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar

Bílaumferð í Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur fallið frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum sem rekin eru á vegum borgarinnar.

Fyrst um sinn munu handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihömluð þurfa að hringja í stjórnstöð í síma 411 3403 og gefa upp númer stæðiskorts síns og bílnúmer við komu í bílastæðahús. Nánari upplýsingar um þessa breyttu framkvæmd og fyrirkomulag hennar hafa verið settar upp við inngang bílastæðahúsa Reykjavíkurborgar.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur fram til þessa verið litið svo á að þar sem gjaldtaka í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar byggist ekki á heimildarákvæði 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hafi mismunandi reglur átt að gilda um undanþágur handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihömluð frá gjaldtöku eftir því hvort bifreið væri lagt í bifreiðastæði við götu (stöðureitur) eða bifreiðastæði í bílastæðahúsi. Nánar tiltekið hafi undanþága frá gjaldskyldu einungis átt að gilda um handhafa stæðiskorta sem legðu bifreiðum sínum í bifreiðastæði við götu (stöðureitur). Í kjölfar nánari skoðunar og samtals við innviðaráðuneytið telur Reykjavíkurborg rétt að túlka ákvæði 2. mgr. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 á þann veg að undanþága sem ákvæðið mælir fyrir um gildi einnig um bifreiðastæði í bílastæðahúsum. Reykjavíkurborg hefur því látið af gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar.

Þar sem núverandi aðgangsbúnaður í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar býður ekki upp á að handhafar stæðiskorta geti með sjálfvirkum hætti notað bifreiðastæði húsanna án greiðslu, verður fyrst um sinn viðhöfð sú tilhögun sem mælt er fyrir um hér að framan. Þegar er hafin vinna af hálfu Bílastæðasjóðs við tæknilegar útfærslur fyrir bílastæðahús Reykjavíkurborgar til að koma til móts við þessa breyttu framkvæmd til lengri tíma litið. Við þá útfærslu verður haft samráð við aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks.

Allar nánari upplýsingar um breytta framkvæmd og tilhögun hennar veitir Bílastæðasjóður í síma 411 1111 eða í gegnum netfangið bilastaedasjodur@reykjavik.is.