Eldra fólk fær kennslu í tölvuleikjum og snjalltækjanotkun

Velferð

""

Í sumar verður aftur farið af stað með tæknilæsinámskeið fyrir fullorðið fólk í Reykjavík. Slík námskeið voru haldin í fyrrasumar og vöktu mikla ánægju. Í ár verða þau enn fleiri og sérhæfðari, svo sem tölvuleikjanámskeið og námskeið í notkun fjölbreyttra snjalltækja. 

Búist er við að nokkur fjöldi eldri Reykvíkinga komi til með að nýta sér fjölbreytt námskeið í tæknilæsi sem verða í boði í sumar á félagsmiðstöðvum borgarinnar. Þátttakendur á slíkum námskeiðum í fyrra voru um 140 talsins og má gera ráð fyrir að þeir verði jafnvel fleiri í ár. „Markmiðið í fyrra var að efla þekkingu og færni fullorðinna við að nota spjaldtölvur. Sumarið 2020 voru haldin 16 grunnnámskeið og 11 framhaldsnámskeið. Vegna þess hversu mikil ánægja var á meðal þátttakenda höfum við ákveðið að halda áfram með þetta verkefni núna í sumar,“ Segir Sigþrúður Guðnadóttir, verkefnastjóri í Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar. Í Velferðartæknismiðjunni eru ýmsar tæknilausnir prófaðar áfram með þeim markmiðum meðal annars að rjúfa félagslega einangrun, vinna gegn einmanaleika, auðvelda samskipti og auka samfélagsvirkni eldra fólks. 

Reynslan frá síðasta sumri sýnir að eldra fólk hefur áhuga á því að bæta tæknikunnáttu sína. Niðurstöður úr nýlegri könnun um líðan og hagi eldri borgara sýna líka að hröð aukning hefur orðið í notkun tæknilausna á meðal eldri borgara. Könnunin sem um ræðir var lögð fyrir 1800 einstaklinga, 67 ára og eldri á landinu öllu og hún gefur glögglega til kynna að eldra fólk hér á landi hefur áhuga á tækni og nýtir sér hana í daglegu lífi. 

Athygli vekur hins vegar að hópurinn sem skilgreindur er sem eldri borgarar er afar ólíkur innbyrðis. Þannig eru þau yngstu í þeim hópi mjög líkleg til að nýta tækni mikið í eigin lífi, meðan þau elstu gera mun minna af því. Sem dæmi má nefna að 76% þeirra sem er á aldrinum 67–72 ára kaupa sér miða á viðburði á netinu, til dæmis á tix.is. Það gera hins vegar aðeins 25% þeirra sem eru 80 ára og eldri. Mikill meirihluti, eða 95%, þeirra sem eru á aldrinum 67–72 ára eiga í samskiptum við vini og fjölskyldu í gegnum netið. Það gera 45% þeirra sem eru 80 ára og eldri. 

Tækjaeign er líka talsvert útbreiddari meðal þeirra sem yngri eru í hópi eldri borgara. Þannig eiga 90% þeirra sem eru 67–72 ára tölvu, 62% þeirra eiga spjaldtölvu, 87% snjallsíma og 18% snjallúr. Í hópi 80 ára og eldri eiga 45% tölvu, 40% spjaldtölvu, 44% snjallsíma en aðeins 3% eiga snjallúr. 

Á námskeiðunum í sumar má gera ráð fyrir að eldra fólk sem þess óskar fái tækifæri til að læra enn betur á tækin sín. „Við erum með ýmsar hugmyndir um sérhæfðari námskeið í ár, til dæmis tölvuleikjanámskeið og notkun annarra snjalltækja. Við höfum auglýst eftir námsmönnum til að leiðbeina á náskeiðunum og munum meðal annars þróa námskeiðin í sumar eftir áhuga og þekkingu þeirra,“ segir Sigþrúður. 

Skýrsla um hagi eldri borgara í Reykjavík og skýrsla um hagi eldri borgara yfir landið allt