Einstaklingsmeðferð í foreldrafærni sannar gildi sitt

Velferð

""

Einstaklingsmeðferð í PMTO foreldrafærni hefur skilað  góðum  árangri hjá foreldrum og börnum sem Barnavernd Reykjavíkur hefur afskipti af.  Þetta sýnir athugun sem gerð hefur verið meðal fjölskyldna sem sóttu slíka meðferð.

Greining og ráðgjöf heim er úrræði á vegum Mánabergs, áður Vistheimili barna. Fyrir tveimur árum fór af stað tilraunaverkefni þar með PMTO meðferðarvinnu. Frá nóvember 2017 til ágúst 2019 luku 27 foreldrar meðferð. Þetta voru tíu pör og sjö einstæðir foreldrar. Fjöldi barna var 38 og aldursdreifingin á bilinu 4-14 ára.

Þau  mælitæki sem notuð voru reyndust næm á breytingar hjá fjölskyldunum. Áhorfsmat sýndi aukningu í foreldrafærni í 95% tilfella. Allir foreldrar sögðust öruggari í uppeldishlutverkinu og að meðferðin hefði komið að frekar eða mjög miklu gagni. Allir fundu þeir jákvæðar breytingar í fari barns síns. Niðurstöður mats- og áhorfslista sýndu að dregið hafði úr hegðunarvanda hjá börnunum í 80-86%  tilfella á meðferðartímabilinu. Í viðhorfsmati sem lagt var fyrir í lokin kom í ljós að flestir foreldranna sögðust geta mælt með PMTO við aðra.

Meðferðin var aðlöguð að foreldrahópnum og fengu foreldrar tvö viðtöl í viku á heimili , en venjan er að foreldrar fái eitt viðtal í viku. Tveir meðferðaraðilar voru ávallt til staðar í viðtölunum. Foreldrar fengu heimaverkefni milli viðtala og einnig símtal eins og þekkist innan aðferðarinnar. Foreldrar gátu einnig haft samband eftir þörfum. Þeir æfðu sig í að beita PMTO-verkfærum sem eru fyrirmæli, hvatning, mörk, lausnaleit, tilfinningastjórn, eftirlit, tengsl við skóla og jákvæð afskipti og samvera. Í tengslum við skólavanda barnanna þá fóru meðferðaraðilarnir gjarnan með foreldrum á fundi í skólum. Öll mál sem bárust PMTO-teyminu voru unnin í samvinnu við málastjóra hjá Barnavernd Reykjavíkur og í sumum tilvikum einnig við þjónustumiðstöðvarnar.

Þrjú þjónustustig PMTO, sem taka mið af eðli og stærð vandans, hafa verið veitt á öllum þjónustumiðstöðvum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með markvissum, formlegum og góðum hætti frá árinu 2015. Á þessu ári hafa hátt í 300 foreldrar fengið þjónustu. Með því að laga PMTO að þörfum ólíkra hópa, eins og hefur verið gert í Greiningu og ráðgjöf heim á Mánabergi, næst árangur og er markmiðið að auka þessa þjónustu innan barnaverndar svo fleiri fái notið hennar.

Skýrslan í heild sinni

Meira um foreldrafærni PMTO