Droplaugarstaðir viðurkennt Eden-heimili

Jórunn Frímannsdóttir, förstöðumaður Droplaugastaða, talar við gesti þegar hjúkrunarheimilið fékk Eden-vottun.

Í dag fékk hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir viðurkenningu frá Eden Alternative á Íslandi, alþjóðlegum samtökum sem hafa það að markmiði að breyta viðhorfi og menningu í tengslum við hjúkrunarþjónustu þar sem umhverfið er hlýlegt og hvetjandi. Droplaugarstaðir eru nú viðurkennt Eden-heimili til næstu þriggja ára.

Hugmyndafræðin er nýleg í hjúkrunarþjónustu og áhrifarík til að efla sjálfræði og lífsgæði íbúa á hjúkrunarheimili. Markmiðið með vottuninni er að auka enn frekar sjálfræði og lífsgæði, þar sem æviágrip eða lífssaga íbúa er mikilvæg í þjónustu. Hugmyndafræðin með einstaklingsmiðaðri þjónustu er bæði mikilvæg fyrir íbúa og starfsfólk og hefur sannað sig í betri líðan og aukinni ánægju.

Jórunn Frímannsdóttir ásamt Rannveigu Guðnadóttur hjá Eden Alternative á Íslandi.

Á myndinni eru Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða, og Rannveig Guðnadóttir hjá Eden Alternative á Íslandi. 

Unnið markvisst að innleiðingunni í tvö ár

„Ég er afar ánægð með þessa viðurkenningu á vinnu okkar. Þegar verið var að endurskoða heildarstefnu Droplaugarstaða hneigðumst við fljótt í átt að Eden stefnunni. Í upphafi ársins 2022 ákváðum við að Eden-stefnan yrði formlega tekin til innleiðingar og við höfum unnið markvisst að því síðan. Við stjórnendur á Droplaugarstöðum leiddum breytinguna. Við höfum fundað með hagsmunaaðilum, haldið stóra vinnufundi með starfsmönnum til að fá skoðanir þeirra að borðinu, auk þess að gera kannanir og eiga samtöl við íbúa og aðstandendur,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður Droplaugarstaða.

Starfsfólk fengið góða innsýn í hugmyndafræðina

Þá hafa starfsmenn setið þriggja daga námskeið hjá Eden Alternative, þar sem þeir fengu góða innsýn í hugmyndafræðina og markmið stefnunnar. Eden-ráð íbúa og starfsmanna hefur verið stofnað og lífstré sett upp sem minnir á vellíðunarlykla Eden. „Menningu á hjúkrunarheimili er ekki breytt með ákvörðun, hún breytist með fólkinu sem þar býr og starfar. Starfsfólkið hér á Droplaugarstöðum hefur sýnt einstakan metnað og samvinnu í þessu ferli.  Eden-stefnan verður okkur gott leiðarljós inn í framtíðina,“ segir Jórunn og óskar velunnurum hjúkrunarþjónustu á Íslandi, íbúum, starfsfólki og aðstandendum Droplaugarstaða til hamingju.