Borgin í langtímasamstarf við Bara tala- stafrænan íslenskukennara

Atvinnumál Mannlíf

maður að nota appið Bara tala. Óljós vangasvipur mannsins, hönd hans og sími í hönd, með appið opið

Reykjavíkurborg hefur lokið tilraunaverkefni og hafið langtímasamstarf við Bara tala, sem er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Allt erlent starfsfólk borgarinnar fær nú möguleika á að nota smáforritið, sem eykur og auðveldar aðgengi að íslenskunámi.

Reykjavíkurborg hefur síðustu ár boðið starfsfólki af erlendum uppruna upp á íslenskukennslu á starfsstöðum og á vinnutíma. Fyrir um ári síðan hófst því til viðbótar tilraunaverkefni með notkun smáforritsins Bara tala, sem önnur leið til að efla íslenskukunnáttu meðal starfsfólks af erlendum uppruna. Starfsfólk sem fær aðgang að smáforritinu fær bæði tíma og næði innan vinnutíma og vinnustaðar síns til að sinna fræðslunni, en æskilegt er að verja í hana 10-15 mínútum á dag. Notkun Bara tala kemur ekki í staðinn fyrir staðnám í íslensku en getur verið mikilvæg viðbót og hentar jafnvel sumum betur. Þá hefur Bara tala sérsniðið starfstengt íslenskunám fyrir erlent starfsfólk leikskóla, þau sem sinna heimahjúkrun og næst er að þróa sérniðinn orðaforða fyrir starfsfólk sundlauga.

sími liggur á hvítu borði, á honum er appið bara tala, listi yfir orðaflokka tengdum leikskólum

Hjá Bara tala er áhersla lögð á talmál og aðfluttum gefst tækifæri til að læra og æfa sig í framsögn á íslenskri tungu. Lausnin er seld beint til fyrirtækja og stofnana og er námsefnið unnið eftir samevrópska tungumálarammanum (CEFR), sem er staðlaður rammi fyrir kennslu, nám og mat á tungumálakunnáttu um alla Evrópu.

Allt erlent starfsfólk borgarinnar fær aðgang að Bara tala

Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst að inngildingu starfsfólks af erlendum uppruna og hefur til að mynda innleitt tungumálaviðmið í öllum atvinnuauglýsingum, þannig að íslenskukröfur séu hvorki of miklar né of litlar. Nú er vika íslenskrar tungu og dagur íslenskrar tungu á morgun, laugardaginn 16. nóvember, og því gaman að greina frá jákvæðum niðurstöðum tilraunaverkefnis borgarinnar og Bara tala. Þegar verkefnið hófst fyrir rúmu ári síðan voru notendur á vegum borgarinnar 50 talsins en voru orðnir yfir 200 í síðasta mánuði. Nú hefur verið tekið stórt skref og smáforritið opnað fyrir allt erlent starfsfólk borgarinnar. Ásta Bjarnadóttir er skrifstofustjóri á skrifstofu starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg og hún fagnar lausninni. „Nú erum við að fara í langtímasamstarf við Bara tala,“ segir hún. „Markmið mannauðsstefnu okkar í ár er að 50% starfsstaða okkar með starfsfólk af erlendum uppruna veiti því aðgang að íslenskukennslu á starfsstað á vinnutíma, eða svigrúm á vinnutíma til að vinna í Bara tala.“

„Bara tala er frábært app. Ég byrjaði að læra íslensku þegar ég byrjaði að nota það,“ 

Þessir möguleikar standa öllum starfsstöðum Reykjavíkurborgar til boða þeim að kostnaðarlausu. Mannauðs- og starfsumhverfissvið borgarinnar aðstoðar við skipulagninguna og sækir um styrki sem almennt dekka allan útlagðan kostnað. Stjórnendur sem hafa áhuga á að bjóða sínu starfsfólki upp á þetta eru hvattir til að senda póst á erlendur@reykjavik.is.

Öflugt tól við inngildingu

Í skýrslu OECD, sem gefin var út nú í september, segir að íslenskunám fyrir innflytjendur sé ekki nægilega árangursríkt sem geti staðið í vegi fyrir inngildingu innflytjenda á vinnumarkaði og í samfélaginu. Samkvæmt skýrslunni telja aðeins 18% innflytjenda á Íslandi sig hafa góða íslenskukunnáttu, samanborið við 60% meðaltal innan OECD. Bara tala skapar vettvang fyrir fyrirtæki og stofnanir til að bjóða starfsfólki upp á starfstengt íslenskunám og grunnnámskeið í íslensku. Rúmlega 80 vinnustaðir hafa innleitt Bara tala fyrir starfsfólk sitt og var smáforritið valið Menntasproti ársins 2024.

Jákvæð reynsla af notkun smáforritsins

Starfsfólk borgarinnar sem notað hefur smáforritið ber því söguna vel, segir Bara tala hjálpa mikið við skilning, málfræði og bættan orðaforða svo eitthvað sé nefnt.

„Bara tala er frábært app. Ég byrjaði að læra íslensku þegar ég byrjaði að nota það,“ segir Ljeoma Obosi frá Nígeru. Nabil Jose Abu Damira Gonzales kemur frá Venesúela og hefur sömu sögu að segja: „Ég hef góða reynslu því appið hefur aukið við orðaforðann,“ segir hann. „Með notkun þess hef ég lært mörg orð sem ég get notað í mínu daglega lífi og í vinnunni. Með því að læra til dæmis einfaldar sagnir get ég búið til setningar og skilið meira.“

Áhersla á að hjálpa erlendu starfsfólki að ná tökum á íslenskunni

Borgarstjóri er afar ánægður með samstarfið. „Reykjavíkurborg leggur mikið upp úr því að starfsfólk borgarinnar með erlendan bakgrunn fái kennslu í íslensku og nái góðum tökum á tungumálinu,“ segir hann. „Bæði erum við með samninga við fimm tungumálaskóla og nýtum okkur appið Bara tala sem notið hefur mikilla vinsælda. Þægindin við Bara tala eru augljós enda getur starfsfólkið notað það á sínum forsendum til þess að efla sig í íslensku fyrir störf sem það sinnir hjá borginni.“

„Reykjavíkurborg leggur mikið upp úr því að starfsfólk borgarinnar með erlendan bakgrunn fái kennslu í íslensku og nái góðum tökum á tungumálinu,“

„Við hjá Bara tala erum sérstaklega ánægð með samstarfið við Reykjavíkurborg,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdarstjóri Bara tala ehf. „Nú er starfstengt íslenskunám, sérsniðið að störfum sveitarfélagsins, aðgengilegt í appinu. Það er greinilegt að þörfin fyrir íslenskunám er mikil hjá erlendu starfsfólki leikskóla, frístundaheimila, heimahjúkrunar, sundlauga og æskulýðsstarfs- sérstaklega í störfum sem hafa áhrif á máltöku barna. Við vonum sannarlega að lausnin okkar hjálpi aðfluttum að læra og tala íslensku.“