Elliðaárnar voru opnaðar í morgun og við það tækifæri tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hver hefði verið valinn Reykvíkingur ársins 2014 en hefð hefur myndast fyrir því að sá sem hlýtur þann titil renni fyrstur fyrir lax í ánum. Að þessu sinni var valið nokkuð óhefðbundið þar sem tveir einstaklingar hljóta titilinn saman en það eru bræðurnir Kristján og Gunnar Jónassynir, kaupmenn í versluninni Kjötborg, á horni Ásvallagötu og Blómvallagötu.
Góðu kaupmennirnir á horninu
Ekki var mögulegt að gera upp á milli bræðranna enda báðir miklir sómamenn. Þeir Kristján og Gunnar eru þekktir fyrir hjálp- og greiðasemi við viðskiptavini sína, eldri borgara og þá sem minna mega sín í hverfinu. Verslun þeirra á horni Ásvallagötu og Blómvallagötu er eins konar félagsmiðstöð í gamla Vesturbænum. „Þeir bræður eru ekki bara að þykjast vera góði kaupmaðurinn á horninu, þeir eru það svo sannarlega,“ segir í einni af tilnefningunum.
Þeir bræður sendast með vörur heim til eldra fólks í hverfinu, fylgjast með einstæðingum og aðstoða fastakúnna við ýmislegt, jafnvel gluggaþvott.
Bræðurnir hafa rekið verslunina Kjötborg frá árinu 1981. Kristján hóf rekstur þar ásamt föður sínum. Um tíma ráku þeir einnig hverfisverslun við Stórholt í Reykjavík.
Þeir bræður Kristján og Gunnar ólust upp í Akurgerði í Reykjavík og hafa verið ötulir stuðningsmenn Víkings. Kristján er margverðlaunaður borðtennismaður og hefur undanfarin 17 ár þjálfað borðtennisfólk hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. „Við höldum að sjálfsögðu líka með KR nema þegar þeir spila við Víking enda er Knattspyrnufélag Reykjavíkur oft í umræðunni í búðinni,“ segir Gunnar.
Lífi og störfum þeirra bræðra voru gerð góð skil í heimildamyndinni Kjötborg sem vann Edduverðlaunin og Menningarverðlaun DV sem besta heimildamyndin 2008.
Borgarstjórahjónin færðu bræðrunum lax
Vel viðraði til laxveiða í Elliðaánum í morgun, tiltölulega milt í veðri og súld. En laxinn gein ekki við agni þeirra bræðra í Fossinum þar sem fyrsti laxinn í Elliðaánum er yfirleitt veiddur. Þeir höfðu þó frestað opnun Kjötborgar til kl. 11. Þeir urðu því frá að hverfa laxlausir. Höfðu kunnugir á orði að fáir laxar væru gengnir í árnar enn sem komið væri.
Borgarstjóri reyndi þvínæst fyrir sér á Breiðunni en þar var heldur enginn lax í tökustuði. Það var ekki fyrr en undir 11 sem fyrsti lax sumarsins í Elliðaánum beit á færi borgarstjóra í Teljarastreng. Honum landaði Dagur B. Eggertsson eftir að hafa vaðið yfir ána með hann á færinu. Það reyndist vera 57 sentimetra löng hrygna. Skömmu síðar beit annar lax á færi borgarstjórafrúarinnar Örnu Daggar Einarsdóttur og landaði hún honum með dyggri aðstoð leiðsögumannsins Ásgeirs Heiðars. Sá var helmingi stærri en lax eiginmannsins.
Að loknum veiðitúrnum ákváðu borgarstjórahjónin að líta við í versluninni Kjötborg og komu færandi hendi því þau færðu bræðrunum laxinn sem borgarstjóri hafði veitt að gjöf.