Blá lýsing fjarlægð

Mannlíf Mannréttindi

""

Mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að hætta nú þegar notkun blárra ljósa á salernum í húsnæði borgarinnar og leita samkomulags við leigjendur húsnæðis í eigu borgarinnar um hið sama. Hér er um skaðaminnkunar- og öryggissjónarmið að ræða.

Tilgangur blárra ljósa á salernum er að gera æðar á yfirborði húðar minna sýnilegar í þeim tilgangi að gera fólki erfiðara fyrir að sprauta sig með vímuefnum. Yfirlýstur tilgangur hefur verið sá að fæla fólk frá því að nota vímuefni og koma enn fremur í veg fyrir að fólk sprauti sig í æð á salernum. Slíkar fælingaraðferðir eru taldar hafa takmarkað gildi.

Reynslan sýnir að lýsing virðist ekki koma í veg fyrir sprautunotkun á salernunum en eykur frekar hættu á skaða við athöfnina. Tilraunir til að minnka neyslu vímuefna í opinberu rými hafa verið með ýmsu móti í gegnum tíðina. Í Kanada, Sviss og á Íslandi hefur m.a. verið brugðið á það ráð að koma fyrir bláu ljósi í almenningsrýmum og er það ein þeirra aðferða sem notast hefur verið við í þeirri viðleitni að beina notendum vímuefna í æð á aðra staði.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á árangri bláu ljósanna en árið 2010 (Parkin og Coomber, 2010) var ein slík gerð í Bretlandi. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að fælingarmáttur bláu ljósanna væri takmarkaður. Helgaðist það af þeirri staðreynd að almenningssalerni voru ekki hátt á lista þátttakenda sem staður til að neyta sinna efna. Þau verða hins vegar valkostur þegar þörfin verður knýjandi og aðrir kostir ekki í boði. Þátttakendur voru sammála um að bláa ljósið gerði þeim erfiðara fyrir við þá athöfn að finna æð og því væri aukin hætta á því að slasa sig, s.s. með því að hitta illa í æð og stinga oft í æðar en að þörfin fyrir efni vegna fráhvarfa væru á þeim tímapunkti hærri í forgangsröðinni en öryggisþættir. Meirihluti þátttakenda hafði gert tilraun til að neyta vímuefnis síns þrátt fyrir blátt ljós og hafði blátt ljós aðeins fælt lítinn hluta þátttakenda frá.

Svipaðar niðurstöður komu fram í eigindlegri rannsókn í Kanada árið 2013.

Þannig eykur slík lýsing eingöngu hættuna sem fólk leggur sig í en hefur ekki forvarnargildi. Jafnframt hafa höfundar rannsókna fært rök fyrir því að blá lýsing sé ein tegund af ofbeldi gagnvart einstaklingum í þessari stöðu.

Blá lýsing á salernum getur einnig haft neikvæð áhrif á fatlað fólk og fólk sem glímir við vandamál á borð við höfuðverki eða sjóntruflanir sem getur átt erfiðara með að nota salernisaðstöðu með svona lýsingu.

Í raun er því lítið sem ekkert sem mælir með notkun bláu lýsingarinnar, sérstaklega þar sem erfitt er að finna gögn um að forvarnargildið eða fælingarmátturinn sé raunverulegur. Afleiðingarnar virðast frekar vera þær að fólk sprauti sig ógætilega, skemmi vefi og fái verri sár sem geta valdið sýkingarhættu. Jafnframt getur bláa lýsingin aukið líkurnar á meiri blæðingu hjá einstaklingum vegna þess hve oft þau stinga til að reyna að ná inn í æð. Aukin blæðing getur síðan leitt til þess að blóð verður frekar eftir á salernum sem getur valdið öðrum notendum salerna og ræstitæknum óþægindum og hættu.

Sú staðreynd að um afar viðkvæman hóp er að ræða sem nú þegar er í aukinni hættu á heilsufarslegum vanda, og hefur takmarkaða samfélagslega valkosti gerir það að verkum að leggja ætti kapp á að tryggja skaðaminnkun og öryggi þar sem það er á valdi borgarinnar. Málið fer nú til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagssviði sem mun fjarlægja bláu lýsinguna.