No translated content text
Umhverfis‐ og skipulagssvið Reykjavíkur vinnur að því að móta framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar. Markmið breytinganna er að stuðla að bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda, hreyfihamlaðra og þjónustuaðila ásamt því að auðga mannlíf og vöxt miðborgarinnar.
Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Því miður er einna mest samþjöppun slysa á gangandi vegfarendum í borginni í miðborginni og þrátt fyrir að umferðarhraði sé almennt lágur í miðborginni eru afleiðingar hluta umferðarslysanna þar sem ekið er á gangandi vegfaranda alvarlegar.
Tillaga að heildstæðri stefnumörkun varðandi umferðarskipulag í Kvosinni hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið með hléum. Meðfylgjandi tillaga er liður í því að fylgja eftir áherslum nýsamþykktar umferðaröryggisáætlunar borgarinnar.
Kjarni kvosarinnar verður göngugötusvæði
Tillagan gerir ráð fyrir að til framtíðar verði kjarni Kvosarinnar göngugötusvæði en aðliggjandi götur verði vistgötur. Utan með svæðinu verða hefðbundnar umferðargötur. Á vistgötum og á jaðri göngugötusvæðisins er gert ráð fyrir stæðum fyrir hreyfihamlaða og vöruafgreiðslu en innan göngugötusvæðisins verði vöruafgreiðsla bundin við ákveðinn tíma dagsins.
Áætlunin verður innleidd í áföngum en stór hluti svæðisins er nú þegar göngugötur eða vistgötur. Til að byrja með er gert ráð fyrir að sá kjarni sem síðar er gert ráð fyrir að verði göngugötur verði gerður að vistgötum. Samhliða því yrði almennum bílastæðum í þeim götum fækkað verulega en stæðum fyrir hreyfihamlaða og til vöruafgreiðslu fjölgað.
Í samræmi við gildandi aðalskipulag
Tillagan er í samræmi við áherslur gildandi aðalskipulags Reykjavíkur en í kaflanum Gatan sem borgarrými, segir: „Unnið verði markvisst að endurhönnun almenningsrýma og göturýma í borginni í þeim tilgangi að efla mannlíf og bæta borgarbrag, sbr. eldri verkefni s.s. Torg í biðstöðu og Sumargötur. Þær götur sem skilgreindar eru sem Aðrar götur á þéttbýlisuppdrætti má skilgreina sem göngugötur, varanlegar eða árstíðabundnar, sbr. ákvæði hér að neðan. Áhersla verður á gerð göngugatna í miðborginni á næstu árum (sjá einnig Miðborgarstefnu, um torg og götur miðborgar).“
Stefnumörkunin nær ekki til endanlegrar útfærslu á göturými eða fastra lokana. Almennt er ekki gert ráð fyrir að þörf verði fyrir fastar lokanir til afmörkunar á göngugötusvæði heldur verði svæðið merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og frágangi á yfirborði háttað þannig að það skeri sig frá hefðbundnu götuyfirborði.
Óskað eftir ábendingum
Kortin sem fylgja eru þrjú. Eitt sem sýnir tillögu að umferðarskipulagi ‐ framtíðarsýn, annað sem sýnir tillögu að fyrsta áfanga breytinga sem gætu komið til framkvæmda á þessu ári eða því næsta og það þriðja sem sýnir núverandi stöðu umferðarskipulags Kvosarinnar.
Þess er óskað, að ábendingar berist á netfang umhverfis- og skipulagssviðs usk@reykjavik.is. Ábendingar þurfa að berast í síðasta lagi 5. október næstkomandi, svo hægt verði að fara yfir og eftir atvikum taka tillit til þeirra, áður en áætlunin er lögð fyrir skipulags‐ og samgönguráð.
Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er nú þegar búin að senda tillöguna til umsagnar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Alþingi, Dómkirkjunni, íbúaráði Miðborgar og Hlíða, aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks, Miðborginni okkar, Öryrkjabandalagi Íslands, Íbúasamtökum Grjótaþorps, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu.