Áskoranir í leikskólamálum í Reykjavík

Leiktæki á leikskólalóð.

Átak í innivistarmálum og flókin staða í ráðningamálum hefur leitt til þess að meðalaldur barna sem fá pláss í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur ekki lækkað eins mikið og vonir stóðu til um, þrátt fyrir að á síðasta ári hafi verið opnaðir fjórir nýir leikskólar og aðrir fimm skólar stækkaðir. Í lok árs 2022 var meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í Reykjavík 18,4 mánuðir.  

Húsnæðismál

Metnaðarfull áform um að lækka aldur barna við inntöku á síðasta ári gengu ekki eftir þrátt fyrir að framkvæmdir hafi gengið vel. Þannig voru fjórir nýir leikskólar opnaðir á árinu 2022, Ævintýraborgir við Nauthólsveg, Eggertsgötu og Vogabyggð og leikskólinn Bríetartún. Þá kláruðust framkvæmdir við stækkanir fimm annarra leikskóla, Gullborg, Brákarborg, Múlaborg, Funaborg og Hagaborg. Á þessu ári stendur til að bæta enn frekar við með tveimur nýjum leikskólum, á Kirkjusandi og Ævintýraborg við Vörðuskóla, og viðbyggingum eða breytingum á húsnæði fjögurra annarra leikskóla. Þá eru nýjar Ævintýraborgir í undirbúningi í Fossvogi og í Vogahverfi. 

Á sama tíma hefur staðið yfir átak í viðhaldi á skóla- og leikskólum Reykjavíkurborgar þar sem góð innivist er sett í forgang í framkvæmdum. Það hefur leitt til þess að stór hluti af nýju eða breyttu húsnæði hefur verið nýttur undir starfsemi skóla sem hafa þurft að flytja út tímabundið vegna áríðandi endurbóta á eldri byggingum.  

Áhrif mönnunar

Misjafnlega hefur gengið að fylla lausar stöður í leikskólum borgarinnar eins og annars staðar á landinu. Lausar stöður og mikil hreyfing á vinnumarkaði hefur valdið auknu álagi á starfsstöðvum. Þetta hefur áhrif á nýtingu á um 200 leikskólaplássum í Reykjavík. Sjálfsstæðir leikskólar em njóta stuðnings frá borginni glíma einnig við áskoranir í ráðningum og er ein af ástæðum þess að eru að taka inn færri börn af biðlistum en fyrri ár. Allt hefur þetta áhrif á aldur barna við inntöku. 

Á þessu ári verður áfram unnið ötullega að því fjölga starfsfólki og bæta aðstöðu í leikskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg er leiðandi í faglegu starfi og þróun kennsluhátta á þessu fyrsta stigi skólagöngu og hafa stjórnendur og leikskólakennarar fengið verðskuldaða viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf.