No translated content text
Göngugötur eru sá áfangastaður borga sem flestir heimsækja til þess að dvelja á og eykur það mannlíf allan sólarhringinn og bætir upplifun. Nú hefur tillaga skipulagsfulltrúa hjá umhverfis- og skipulagssviði að nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn sem göngugötu, 2. áfanga, verið lögð fram aftur að lokinni auglýsingu og samþykkt í skipulags- og samgönguráði.
Göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa en reynslan hefur sýnt að íbúar borga vilja göngugötu í miðborgum og að verslun hefur aukist við gönguvæðingu. Í tillögunni felst að hluti Laugavegs og Vatnsstígs verði gerður að varanlegu göngusvæði og samhliða því er unnið að hönnun ýmissa lausna til að bæta svæðið og umhverfið. Gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, hellur, gróður, götugögn og lýsingu. Tillögunni var vísað til borgarráðs.
Við hönnun göturýmisins skal það haft í huga að niðurröðun trjáa, ljósastólpa og götugagna hindri ekki gott flæði gangandi umferðar, umferðar vegna neyðaraksturs og aðfanga og stórra hópa sem fara um göturýmið t.d. í stórum hópgöngum.
Hönnun göngugötunnar verður listræn og notendavæn. Allt yfirborð og götugögn verða valin af kostgæfni þannig að göturýmið sómi sér vel sem göngusvæði í miðborg. Lýsing skal vera þægileg, listræn, stuðla að öryggistilfinningu og vera án glýju eða til óþæginda á efri hæðum bygginga. Götugólf skal vera samkvæmt deiliskipulagi heilsteypt og mynda rólegt yfirborð fyrir bætt aðgengi allra.
Góð hljóðvist, rampar og gróður
Hljóðvist á svæðinu mun batna með lokun fyrir almenna bílaumferð. Með lokun fyrir bíla og önnur farartæki innan skipulagssvæðisins verður bílaumferð eins og verið hefur með sumarlokunum um aðliggjandi götur. Hægt verður að aka þvert yfir Laugaveg til norðurs um Klapparstíg og til suðurs um Frakkastíg. Við göngugöturnar eru bílahúsin Bergstaðir, Traðarkot og Vitatorg í innan við 350 metra radíus, alls 551 stæði.
Víða eru inngangar nú í verslunarrými á jarðhæð ekki í hæð við götugólfið. Við hönnun göngugötunnar verður þar sem aðstæður leyfa leitast við að leysa þann hæðarmun þannig að það verði eðlilegur hluti að heildarlausn götuyfirborðsins, t.d. með römpum, setköntum og gróðurstöllum.
Tenglar
Deiliskipulag Laugavegur sem göngugata