No translated content text
Tillaga að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 var samþykkt í skipulags- og samgönguráði í dag. Markmið áætlunarinnar er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum í borginni en stefnt er að því að að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli árið 2025. Í Hjólreiðaáætluninni er sett fram framtíðarsýn fyrir hjólaborgina Reykjavík með mælanlegum markmiðum til ársins 2025 og þeim framkvæmdum og aðgerðum sem stefnt er að á tímabilinu. Lagt er til að fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum í Reykjavík verði að lágmarki fimm milljarðar króna á tímabilinu. Áætlunin byggir á fjórum yfirmarkmiðum sem öll hafa mælanleg undirmarkmið.
Markmið 1: Aukin hlutdeild hjólreiða
Aukin hlutdeild hjólreiða mun hafa góð áhrif á samgöngur, umhverfi, lýðheilsu, lífið í borginni og skapa betri borg.
Markmið Reykjavíkurborgar 2025:
- Að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli.
- Ferðir farnar í vinnu á hjóli verði að minnsta kosti 10%.
- Að minnsta kosti 25% ferða grunnskólanema í skólann verði farnar á hjóli.
- Að minnsta kosti 10% ferða framhaldsskólanema í skólann verið farnar á hjóli.
Markmið 2: Bættir innviðir og sýnilegri hjólreiðar
Góðir innviðir fjölga þeim sem hjóla. Fjölgun hjólandi eykur sýnileika og öryggi. Þannig bætum við hjólamenninguna og fleiri líta til hjólsins sem fyrsta valkosts. Fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum verði að lágmarki fimm milljarðar króna á tímabilinu.
- Hjólastígar í Reykjavík verði að minnsta kosti 50 km að lengd árið 2025 og yfir 100 km 2030.
- Meira en 90% íbúa borgarinnar búi innan við 150 m frá hjólastíg árið 2030.
- Hjólastæði við grunnskóla verði 5.000 talsins. Nú eru þau 3.300 talsins.
Markmið 3. Bætt þjónusta
Vetraraðstæður geta verið erfiðar í Reykjavík, því er mikilvægt að vetrarþjónusta sé framúrskarandi á helstu leiðum. Þannig tryggjum við áreiðanleika og jákvæða upplifun. Með bættri þjónustu við hjólanetið fjölgum við þeim sem hjóla að staðaldri.
- Vetrarþjónusta á göngu- og hjólastígum verði aukin á tímabilinu.
- Lengd stíga sem eru greiðfærir kl. 8 á morgni á virkum dögum verði að minnsta kosti 150 km árið 2025. Til samanburðar er þessi tala nú 110 km.
- Tryggðar verði fullbúnar malbikaðar hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi þegar framkvæmdir eru í borgarlandinu.
Markmið 4: Hjólamenning
Skapa þarf umhverfi sem hvetur til hjólreiða. Góð hjólaborg er borg sem tekur mið af öllum aldurshópum, öllum kynjum, borg sem hugar að þörfum fatlaðs fólks og styður við hjólreiðar óháð efnahag.
- Lögð verði áhersla á fjölgun hjólandi í öllum samfélagshópum og þróunin greind með reglubundnum hætti.
- Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir til að auka hjólreiðar í hópum sem eru síst líklegir til að hjóla samkvæmt ferðavenjukönnun.
- Jafnari hlutdeild ferða milli kynja.
Ein af aðgerðunum er að gerð verði könnun á öryggistilfinningu og viðhorfi fólks til hjólreiða í upphafi og við lok tímabilsins. Stefnt að jákvæðri þróun á báðum þáttum miðað við sambærilega könnun frá hausti 2018.
Hugsað lengra – kort yfir hjólanetið 2030
Aðeins hluti af markmiðunum er talinn upp hér að ofan. Öll markmið og útlistaðar aðgerðir til að ná þessum markmiðum er hægt að skoða í áætluninni sjálfri. Enn fremur er þar hægt að skoða kort yfir hjólanetið í borginni árið 2020 og eins og það er áætlað 2030. Við mótun framtíðarsýnar um hjólanetið í borginni þarf að horfa lengra og í stærra samhengi, leggja línurnar til lengri tíma svo mögulegt sé að hefja undirbúning og skipulagsvinnu verkefna sem koma til framkvæmda eftir árið 2025. Í áætluninni er því gerð tillaga að framtíðarsýn fyrir hjólanetið í Reykjavík til ársins 2030.
Hluti af heildarsýn í takt við samgöngusáttmála
Frá því fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 hefur hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum aukist úr 2% í 7%. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur er hluti af heildarsýn á samgöngur, þróun byggðar og lífsgæði í fjölbreyttri borg í takti við samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, aðalskipulag Reykjavíkur og loftslagsstefnu. Reykjavík er hjólaborg fyrir reiðhjól, hlaupahjól og allskonar hjól. Reykjavík stefnir að því að verða hjólaborg á heimsmælikvarða.
Gengið er út frá því að uppbygging á sameiginlegu hjólaneti höfuðborgarsvæðisins verði í fullum gangi næsta áratuginn í samræmi við samgöngusáttmála og að meðfram Borgarlínu verði byggðir upp hjólastígar. Meginmarkmið verkefna sem fjármögnuð verða af Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur verði að þétta og bæta hjólanetið í borginni til viðbótar við þá stíga sem til koma vegna sameiginlegra verkefna.
Hjólreiðar eru hamingjuríkasti ferðamátinn
Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var fyrst samþykkt árið 2010 og endurskoðuð áætlun var samþykkt árið 2015. Skipulags- og samgönguráð skipaði stýrihóp um mótun nýrrar hjólreiðaáætlunar í maí 2020. Í stýrihópnum sátu Katrín Atladóttir sem jafnframt var formaður, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og síðar Pawel Bartoszek í stað Kristínar Soffíu.
Hjólreiðar eru hagkvæmur, heilsusamlegur og skemmtilegur ferðamáti. Betri hjólaborg eykur lífsgæði allra borgarbúa. Loftgæði verða betri, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð verða minni. Hjólreiðar eru hamingjuríkasti ferðamátinn.
Opna tillögu að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025.