Barnalist úr Miðborg á Kjarvalsstöðum

Skóli og frístund

""

Barnalist réði ríkjum á öllum listasöfnum borgarinnar á Barnamenningarhátíðinni. Börnin í leikskólanum Miðborg létu ekki sitt eftir liggja og settu upp skemmtilega sýningu á Kjarvalsstöðum. Þá sungu þau í Ævintýrahöllinni í Iðnó með börnum úr Austurbæjarskóla. 

„Við erum mjög ánægð með litlu listamennina okkar“, segir Ingibjörg Hannesdóttir, verkefnastjóri lista og menningar í Leikskólanum Miðborg, en börnin settu upp gagnvirka upplifunarsýningu með listamanninum Björk Viggósdóttur á Kjarvalsstöðum í tilefni af Barnamenningarhátíð. Að sögn Ingibjargar komu mörg hundruð gestir á opnunardegi sýningarinnar, bæði fullorðnir og börn og léku sér saman. „Það var mikil gleði og gaman að sjá börnin í hlutverki gestgjafa leiða fullorðna fólkið í leik. Þetta er góð leið til að færa menningaarfinn okkar til næstu kynslóðar, enda eru öll börnin með það á hreinu eftir þessa vinnu að Listasafn Reykjavíkur er í þeirra eigu“. 

Settu sjálf upp sýninguna
Leikskólabörnin á Miðborg settu sjálf upp sýninguna á Kjarvalsstöðum með Björk Viggósdóttur. Hún gerði svo fallegt vídjóverk upp úr undirbúningsvinnunni á leikskólanum og er það hluti af sýningunni. „Það er sérstaklega ánægjulegt hve margir skólahópar hafa komið á sýninguna“, segir Ingibjörg. „Bæði frá leikskólum og grunnskólum víðs vegar úr borginni. Það er kannski ekki skrýtið að það sé skemmtilegt að koma á sýningu þar sem börn búa til skemmtilega og skapandi upplifun fyrir önnur börn. Börnin á Leikskólanum á Miðborg eru allavega ánægð með árangurinn og stolt af ævintýraheiminum sínum“.

Samhljómur skólastiga – með Austurbæjarskóla
Elstu börn leikskólans sungu einnig á tónleikum með yngstu nemendum í Ævintýrahöll Barnamenningarhátíðar. Að sögn Ingibjargar eru tónleikarnir hugsaðir sem upptaktur að samstarfi milli leikskólans Miðborgar, Austurbæjarskóla og frístundaheimilisins Draumalands. „Okkur finnst mikilvægt að vinna að samfellu milli skólastiga og tónlist er tilvalinn vettvangur til að hafa jákvæð samskipti milli skólastiganna. Börnin okkar þekkja líka mikið af yngstu nemendum hverfisskólans sem kannski voru leikfélagar þeirra árið á undan. Það er gaman fyrir alla að hittast aftur, syngja og hafa gaman saman. Það er von okkar að þetta verði fastur liður í samstarfi skólanna á komandi árum“ segir Ingibjörg.