Ljóðalestur í Tjarnarbíó

Mannlíf Menning og listir

""

Miðvikudaginn 14. maí verða þrjú ljóðskáld í brennidepli í Andrými Bókmenntaborgarinnar í kaffihúsinu í Tjarnarbíói. Þetta eru þau Daniela Seel, Elías Knörr og Sarah Brownsberger. Öll munu þau flytja eigin verk og sum einnig annarra, hvert með sínum hætti. 

Andrými miðvikudaginn 14. maí. Tjarnarbíó kl. 20:00

Að flytja ljóð

Sarah beinir sjónum að því hvernig við lesum, hlustum á og munum ljóð, en hún veltir einnig fyrir sér klofningi söng- og bókmenningar. Daniela mun para eigin ljóð saman við vídeóverk eftir listamennina Roger Ballen og George Monbiot og  Elías flytur og jafnvel syngur sín ljóð á sinn einstaka hátt.

Skáldin eru öll aðflutt, tvö þeirra hafa búið á Íslandi um mislangt árabil, en Daniela dvelur nú í Reykjavík sem gestarithöfundur á vegum Goethe stofnunar og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.

Andrýmið hefst kl. 20 og byrjar kvöldið með flutningi skáldanna, sem fer fram á íslensku, ensku og þýsku. Að því loknu verður opnað fyrir umræður um flutning ljóða milli fólks, landa og tungumála eða hvað annað sem fólk vill spjalla um. Þýðingum verður dreift á þýsku ljóðunum en umræður verða á ensku.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

UM SKÁLDIN

Daniela Seel er þýskt ljóðskáld og útgefandi. Hún er fædd í Frankfurt árið 1974 en býr og starfar í Berlín. Daniela hyggst nota dvölina í Reykjavík í listsköpun sinni, meðal annars með því að viða að sér hljóðefni í reykvísku og íslensku umhverfi.

Daniela stofnaði útgáfufélag sitt, kookbooks – Lab for Poetry as Life Form, árið 2003 ásamt myndlistarmanninum Andreas Töpfer. Hún hefur staðið fyrir fjölda bókmenntaviðburða af ýmsum toga, upplestrum og ýmiss konar bræðingi listforma, oft í samvinnu við listamannanetið KOOK. Má þar nefna verkefnin Motion Recorder, Poetry Meets Dance, Talking Walk og KOOKwalks through Berlin. Meðal samstarfsmanna hennar eru dansarinn David Bloom, tónlistarmaðurinn PLANNINGTOROCK og ljóðskáldið Rick Reuther.

Daniela hefur tekið þátt í mörgum alþjóðlegum viðburðum, til að mynda á Filba Internacional í Buenos Aires og Santiago de Chile, Ljóðamánuðum í Brno, Kosiče, Ostrava og Wrocław, Festival Krokodil í Zagreb, Ljóðahátíðinni í Bergen og Zeitkunst í Berlín og París.

Fyrsta bók Danielu Seel er ljóðasafnið ich kann diese stelle nicht wiederfinden (kookbooks 2011). Hún vinnur nú að verkinu was weißt du schon von prärie, sem kemur út hjá kookbooks á næsta ári. Ljóð eftir Danielu hafa verið þýdd á pólsku, ensku, slóvakísku, frönsku, norsku, ítölsku, hollensku, serbnesku, króatísku, spænsku, sænsku, tékknesku og dönsku.

Sarah Brownsberger er bandarískt skáld og fræðimaður. Hún kom fyrst til Íslands árið 1981 á ársstyrk frá Thomas J Watson stofnuninni til að rannsaka hvaða áhrif eldri hefðir í vísna-, rímna- og ljóðagerð kunni að hafa haft á nútímaljóðlist á Íslandi. Hún skoðaði meðal annars hvort vinsældir og kraftur þessara listforma hefðu haldið áfram að njóta sín í breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Sarah sökkti sér í íslenskunám, tók viðtöl við þekkta íslenska höfunda og réð sig á sveitabæ til að kynnast íslensku sveitalífi. Loks gekk hún í kringum landið og tók yfir 70 viðtöl um reynslu fólks af ljóðagerð og bókmenntum.

Að Íslandsdvölinni lokinni settist Sarah á skólabekk í Harvardháskóla og rannsakaði notkun ljóðmynda úr trúarlegum hefðum í opinberri umræðu beggja vegna borðsins í Kalda stríðinu.

Sarah hefur farið ótroðnar slóðir í listferli sínum. Hún fór að birta ljóð sín 16 ára gömul, var orðin aðstoðarkennari við ritlistardeild Oberlin College í Ohio 18 ára gömul, og hefur síðan birt ljóð reglulega í virtum bókmenntaritum, svo sem Field og The Hudson Review. Ljóð hennar „Ilmbörkur“ (The Scented Birch) er efni nýs bókverks eftir listakonuna Joan Backes og var eintak af verkinu keypt af John Hay Special Collections Library við Brown University á Rhode Island árið 2013.

Sarah hefur verið búsett á Íslandi um árabil. Hún hefur þýtt íslenskan skáldskap á ensku – ljóðlist, sögur og einnig listgagnrýni. Meðal þýðinga hennar eru Vargatal eftir Sigfús Bjartmarsson og Júní eftir Hörpu Árnadóttur.

Elías Knörr / Elías Portela er skáld og þýðandi frá Galisíu sem hefur verið búsettur í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Á galisísku hefur hann birt ljóðabækurnar Imaxes na pel og Cos peitos desenchufados. Árið 2010 kom út ljóðabók hans á íslensku, Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum, sem forlagið Stella gaf út. Elías yrkir á galisísku, íslensku og spænsku og hann hefur einnig þýtt íslenskar bókmenntir á önnur mál. Elías er einn þeirra höfunda sem eiga ljóð í safninu Ljóð í leiðinn – Skáld um Reykjavík, sem forlagið Meðgönguljóð gaf út í tilefni Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg á síðasta ári.

Elías Knörr hefur verið virkur í reykvísku bókmenntalífi síðustu árin. Hann hefur tekið þátt í upplestrardagskrám, var einn af þátttakendum í verkefninu Alþjóðlegt ljóðaspjall á vegum Bókmenntaborgarinnar 2012 og hann hefur tekið þátt í og staðið fyrir hinsegin ljóðaviðburðum.