Afleggjari af Óslóartrénu með hverjum samningi um grenndarsvæði skóla

Umhverfi Skóli og frístund

""

Á fyrsta degi sýningarinnar Skóla- og frístundaborgarinnar Reykjavík sem nú stendur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur voru 30 samningar um grenndarsvæði undirritaðir af leik- og grunnskólastjórum í borginni.

Markmið grenndarsamninga er að skapa vettvang fyrir umhverfismennt og útinám í nærumhverfi skóla og efla þannig tengsl barna og ungmenna við nærumhverfi sitt og bæta umgengni þeirra við græn svæði borgarinnar. Frá árinu 2004 hafa grunnskólar í Reykjavík gert slíka samninga um vettvang til útináms í nágrenni skólans.

Á síðasta ári hófst endurskoðun samninganna, m.a. í þeim tilgangi að tengja markmið þeirra og innihald betur við nýja aðalnámskrá, skýra verkferla  samstarfi milli skóla og ólíkra sviða í borginni en ekki síst til að afla upplýsinga um útinám í borginni. Í dag eru nær jafnmargir leik- og grunnskólar í borginni með grenndarsamninga og svæðin sem um ræðir eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg, bæði fjara, skógur, mólendi og klapparholt, manngerð og náttúruleg.

Helena Óladóttir, verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur og Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri Lesið í skóginn höfðu umsjón með endurskoðun samninganna en þau halda einnig utan um framkvæmd þeirra og samstarf við skólana. Samningarnir eru gerðir milli skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og leik- eða grunnskólanna.

Samningarnir voru undirritaðir við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhússins, en allir samningsaðilar fengu jafnframt trjáplöntu að gjöf, afleggjara af Óslóartrénu frá árinu 2007, en Ólafur Oddsson safnaði rauðgrenifræjum af trénu og kom upp afleggjurum í samstarfi við ræktunarstöðina í Fossvogi.